Hvað skal gefa þeim sem allt á? Hvernig fer maður að því að toppa gjöfina frá því í fyrra? Viðskiptablaðið stingur upp á nokkrum hugmyndum að hlutum sem gætu ratað undir jólatréð þetta árið. Áður en langt um líður munu jólin ganga í garð með tilheyrandi höfuðverk þeirra sem hata að velja gjafir.

Viðskiptablaðið ákvað því að reyna að minnka valkvíðann fyrir þennan hóp með því að sá fræjum gjafahugmynda í huga þessa hóps. Hér í kring fylgja níu hugmyndir sem hægt er að grípa til. Hluta gjafanna, eða útfærslur af þeim, er hægt að kaupa heima á klakanum en aðrar verður að panta að utan.

Ef vörurnar eru ekki til hér á landi var þess gætt að velja vörur hjá verslunum sem senda hingað til lands. Í upptalningunni er sjaldnast stungið upp á sérstakri verslun þar sem hægt er að kaupa vörurnar en seljandi ætti að finnast með einfaldri leit á veraldarvefnum.

Lumos hjálmur
Lumos hjálmur
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fyrir hjólreiðafólk

Lumos snjallhjálmur

Hjólreiðar njóta síaukinna vinsælda sem ferðamáti allt árið um kring. Lumos snjallhjálmurinn er með innbyggðu ljósi að framan og aftan sem auka sýnileika hjólarans. Ekki nóg með það heldur nemur hjálmurinn þegar hægt er á ferðinni og gefur það til kynna með skæru rauðu ljósi. Þá nemur hann það einnig ef bending er gefin um beygju og gefur þá stefnuljós líkt og um bíl sé að ræða. Rafhlöðuending er 18 klukkustundir og þá er hægt að tengja hann við snjallforrit á borð við Strava.

  • Verð frá 21.995 kr.

Fizzics
Fizzics
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fyrir bjórelskendur

Fizzics bjórdæla

Þau sem unna bjór vita að hann bragðast best beint af spena. Fizzics bjórdælan breytir venjulegum dósa- eða flöskubjór í kranabjór. Flöskunni er einfaldlega komið fyrir inni í græjunni og vökvanum síðan dælt í glas með tilheyrandi froðumyndun. Ýmsar týpur af slíkum dælum eru til en Fizzics varð fyrir valinu í þessari samantekt.

  • Verð frá 15.495 kr.

Aerogarden
Aerogarden
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fyrir græna fingur

Aerogarden ræktunarlampi

Það getur reynst erfitt að rækta plöntur og matjurtir á Íslandi yfir vetrarmánuðina enda leyfa veðurskilyrði helst ræktun frostrósa. Fyrir þau sem vilja eiga ferskar matjurtir allt árið um kring gæti lausnin falist í ræktunarlampa fyrir heimilið. Þessi umræddi lampi er með LED-lýsingu og hægt er að snúa plötunni eftir þörfum. Hentar vel til að koma plöntum af stað áður en þeim er komið fyrir utandyra eða fyrir smágerðari jurtir allt árið um kring.

  • Verð frá: 9.995 kr

Polaroid
Polaroid
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fyrir unglinginn

Polaroid Originals OneStep+

Stóra systir Polaroid Originals OneStep. Myndavélin getur tengst við snjallsíma sem síðan er hægt að nýta sem fjarstýringu eða til að stilla vélina áður en mynd er tekin. Myndavélin inniheldur tvær linsur sem henta fyrir mismunandi tilefni. Verð frá 22.995 kr.

Vinyl1 plötuspilari
Vinyl1 plötuspilari
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fyrir tónlistaráhugamanninn

Vínylspilari og plötuáskrift

Eftir að hafa nánast dáið út um skeið eru vínylspilarar að sækja í sig veðrið. Spilari auk áskriftar er gjöf sem heldur áfram að gefa. Nýir spilarar bjóða flestir upp á Bluetooth tengingu svo hægt er að tengjast slíkum heyrnartólum eða hátölurum. Áskriftin tryggir síðan að ávallt séu nýjar plötur til í plötuskápnum. Hægt er að velja áskrift í jafnlangan tíma og veski og áhugi leyfa, t.a.m. á VinylMePlease.com.

  • Verð frá 19.995 kr. (ódýr spilari plús 3ja mánaða áskrift)

Secret Hitler
Secret Hitler
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fyrir fjölskylduna

Borðspil

Að eiga góðan spilaskáp með möguleikum fyrir alla fjölskylduna er afar sniðugt. Því er ekki úr vegi að lauma einu slíku í möndlugjöfina eða jólapakka. Úr mörgu er að velja, bæði spilum þar sem leikmenn vinna saman eða gegn hver öðrum. Nokkur spil úr síðarnefnda flokknum verða nefnd hér; Avalon, Coup og að endingu Secret Hitler. Það er skemmtilegra en maður heldur að kalla nákomna Hitler eða fasista.

  • Verð fer eftir spili sem verður fyrir valinu.

Arccos
Arccos
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fyrir golfarann

Arccos skynjarar

Fyrir þau sem vilja fylgjast með gengi sínu í golfi gætu skynjararnir frá Arccos verið eitthvað til að líta á. Bæði er hægt að kaupa ný grip á kylfurnar eða lítinn nema sem festur er efst á gripið. Búnaðurinn nemur sveifluna og finnur út högglengd og staðsetningu bolta. Upplýsingunum er síðan safnað saman í snjallforriti þar sem hægt er að fylgjast með bætingunni. Appið hefur meðal annars að geyma nokkra íslenska golfvelli.

  • Verð frá 30.900 kr.