Rafbíladeild Mercedes EQ hefur verið iðinn við kolann svo ekki sé meira sagt og komið fram með hvern rafbílinn á fætur öðrum á síðustu misserum. Auk EQC eru í sportjeppadeild þýska lúxusbílaframleiðandans frá Stuttgart EQS SUV, EQE SUV, EQB og EQA. Þetta er vel heppnuð og flott lína í alla staði. EQC er miðjubarnið í sportjeppafjölskyldu Mercedes EQ og stendur vel fyrir sínu.

EQC er með mjög góða aksturseiginleika eins og búast má við af Mercedes-Benz. Bíllinn er mjúkur en öflugur. Hann liggur vel og stýringin er afbragðsgóð. Bíllinn er afar þéttur og lítið sem ekkert götuhljóð heyrist inn í hann. Rafhlöðurnar eru 80 kW og skila 408 hestöflum og togið er 760 Nm.

EQC er aflmikill og snöggur upp. Hann fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 5,1 sekúndu. Drægni sportjeppans er allt að 437 km á rafhlöðunni sem er mjög gott. EQC er búinn hinu rómaða 4MATIC fjórhjóladrifi frá Mercedes-Benz sem er eitt það besta sem völ er á. Það hjálpar sannarlega við vetraraðstæður eins og bíllinn var prófaður í.

Framúrstefnulegur og flottur

EQC er framúrstefnulegur og fallegur í hönnun. Heildarútlit bílsins er flott. Þaklínan fellur mjúklega niður að afturhlutanum og býður upp á sportlegt og kraftmikið útlit. Aðalljósin og grillið eru sameinuð í eina heild í black-panel-grillinu.

MULTIBEAM LED-aðalljósin, sem eru staðalbúnaður, undirstrika tæknilegt yfirbragðið með bláum skrautlínum og sérstakri EQ-ljósahönnun. Innanrými EQC er nútímalegt og fallegt. Umhverfiseinkennandi lofttúður með flottri EQhönnun eru málm galvaníseraðir fletir.

Sérstakur hápunktur er rimlakragi með málmútliti sem nær frá mælaborðinu út að hurðum og skapar þannig þægilega umlykjandi áhrif. EQC fær sérstaklega hannað sætisáklæði með lítillega sanseruðum litatóni: Sunnyvale í indígóbláum eða silkidrapplituðum lit, ásamt svörtu ARTICO-leðurlíki.

Auk þess leggja rósargyllt atriði í innanrýminu áherslu á framsækinn lúxus. Hægt er að leika sér með stemningslýsing í innanrými EQC. Hægt er að velja úr 64 einstökum litum og mörgum litasamsetningum og litaáhrifum.

Nánar er fjallað um Mercedes-Benz EQC í sérblaðinu Bílar sem kom út með Viðskiptablaðinu.