Langar raðir mynduðust eftir lottomiðum víða um Bandaríkin í gær. Ástæða þess er sú að aðalvinningur Powerball lottósins er kominn upp í 1,9 milljarða dala, eða sem nemur um 279 milljörðum króna. Eins og gefur að skilja hefur aðalvinningurinn aldrei verið hærri í sögunni.

Á laugardaginn var dregið í Powerball lottóinu í fertugasta skipti í röð án þess að aðalvinningurinn félli heppnum lottóspilara í skaut. Rétt eins og í íslenska lottóinu stækkar aðalvinningurinn í Powerball lottóinu hvert sinn sem enginn vinnur hann og til að hreppa vinninginn þarf lottóspilari að eiga miða sem inniheldur allar sex tölurnar sem dregnar eru út.

Líkurnar á að vinna aðalvinninginn í Powerball lottóinu eru 1 á móti 292,2 milljónum. Eftir að dregið var í lottóinu á laugardaginn hrundi heimasíða Powerball vegna álags, þar sem mikill fjöldi miðahafa reyndi samtímis að kanna hvort þeir hafi dottið í lukkupottinn.