Hús sem Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti, átti heima í á níunda áratugnum með þáverandi eiginkonu sinni Ivönu Trump heitinni, er til sölu á 30 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 4,25 milljörðum króna. Ivana hélt húsinu eftir að þau skildu árið 1992, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal.

Núverandi eigendur fasteignarinnar eru hjónin Robert og Suzanne Steinberg, en þau keyptu hana á 15 milljónir dala árið 1998. Húsið er 1.838 fermetrar að stærð og stendur á 23.500 fermetra lóð. Þar af eru tólf svefnherbergi, átján baðherbergi, átta arineldar, inni- og útisundlaug, tennisvöllur, poolborð, kvikmyndasalur, bryggja og púttvöllur.

Húsið var byggt árið 1939 og er staðsett í Greenwich í Connecticut-ríki í Bandaríkjunum. Það er af georgískum arkitektúr, en hann einkennist af hlutföllum og jafnvægi, það er sambandinu á milli hæðar og breiddar á byggingarhlutum.

Steinberg fjölskyldan ver mestum tíma sínum í Flórída-ríki þar sem þau hafa byggt sér heimili á Delray Beach. Því hefur húsið þeirra í Greenwich verið meira og minna til sölu frá árinu 2009 þegar þau settu 50 milljón dala verðmiða á húsið, samkvæmt Realtor.com.

Robert segir að hann hafi upprunalega sett háan verðmiða á húsið þar sem hann hafði í raun ekki mikinn áhuga á því að selja húsið. Nú lítur hins vegar út fyrir að Steinberg fjölskyldan muni loks losa sig við eignina sem þau hafa átt í um 24 ár.

Steinberg hjónin segja að þau hafi meðal annars haldið útskriftarveislur og brúðkaup á lóðinni. Húsið hafi verið mjög rúmgott fyrir fjölskylduna og öll gæludýrin þeirra, en Suzanne hefur bjargað ófáum heimilislausum hundum. Hefur fjölskyldan á tímabili verið með allt að fjórtán hunda á heimilinu.

Hér má sjá myndir af þessari glæsilegu eign.