Íslenska tölvuleikjafyrirtækið 1939 Games gaf út sinn fyrsta tölvuleik, KARDS, í síðustu viku. Leikurinn kom út á leikjaveitunni Steam fyrir PC tölvur 15. apríl en leikurinn verður einnig gefinn út fyrir snjalltæki, síma og spjaldtölvur, á haustmánuðum. KARDS tilheyrir svokölluðum “Digital Collectible Card Games” sem útlistast á íslensku sem stafrænn safnkortaleikur.

Sögusvið leiksins er síðari heimsstyrjöldin sem er nýjung í þessum flokki þar sem nánast allir leikirnir sem fyrir eru í þessum flokki tilheyra svokölluðum fantasy leikjum og er leikurinn Hearthstone frá leikjaframleiðandanum Blizzard þar stærstur. Áætlað er að milli 45-50 milljónir manna spili þessa tegund leikja í hverjum mánuði og að þeir munu skila yfir 200 milljörðum króna í tekjur á þessu ári.

KARDS hefur verið fáanlegur í opinni prufuútgáfu síðan í apríl á síðasta ári og fyrir útgáfuna í síðustu viku höfðu rúmlega 170 þúsund notendur spilað leikinn í yfir eina og hálfa milljón klukkustunda samtals. Á þessum tólf mánuðum hefur leikurinn verið í mikilli þróun og hann verið þýddur á 6 tungumál, frönsku, þýsku, pólsku, rússnesku, kínversku og brasilíska portúgölsku auk ensku. Það er verið er að skoða möguleika á að þýða leikinn yfir á íslensku.

„Útgáfu leiksins hefur verið gífurlega vel tekið þessa fyrstu daga og er leikurinn kominn með yfir 250 þúsund spilara samtals en við höfum verið að fá yfir 50 þúsund heimsóknir á dag undanfarna daga,“ segir Ívar Kristjánsson, framkvæmdastjóri 1939 Games.

„Leikurinn hefur verið að fá mjög góða dóma bæði hjá spilurum og fjölmiðlum en yfir sex þúsund spilarar eru búnir að gefa leiknum einkunn á Steam og stendur heildareinkunn í 88%. Þá hafa fjölmiðlar gefið KARDS góðar einkunnir en þær hafa allar verið á bilinu 8-9 af 10 mögulegum. Þetta gefur okkur góðan vind í seglin fyrir áframhaldandi þróun.“

1939 Games lauk nýverið 275 milljóna króna fjármögnun. Crowberry Capital, Hilmar Veigar Pétursson og Sisu Game Ventures (finnskur fjárfestingasjóður) leiddu fjárfestinguna. Nú vinnur fyrirtækið hörðum höndum að því að fylgja eftir útgáfu leiksins á PC með nýrri viðbót við leikinn sem kemur út í júní ásamt því að koma leiknum út fyrir iOs og Andriod snjalltæki síðar á árinu.

Viðskiptablaðið sagði frá því 2017 að félagið stefndi á 220 milljóna króna hlutafjárútgáfu, en haustið 2018 kom fram að tæknirisinn Tencent hefði tekið þátt í henni.

„Við erum gríðarlega ánægð með að hafa klárað þessa fjármögnun á tímum COVID-19 faraldursins og gott að sjá þá tiltrú sem núverandi fjárfestar, Crowberry Capital og Sisu Game Ventures, hafa á félaginu ásamt því að fá Hilmar Veigar svona stóran inn sem fjárfesti,“ segir Ívar

„Við Hilmar þekkjumst náttúrulega vel frá CCP þar sem við störfuðum mjög náið saman en hann kemur með mikla þekkingu og reynslu inn í félagið. Það eru fáir hér á landi, ef nokkrir, sem þekkja leikjaiðnaðinn betur en Hilmar og þó víðar væri leitað. Sisu Games Ventures og Crowberry Capital hafa verið með okkur síðan 2017 og 2018 og stutt vel við bakið á okkur á þessum tíma.“

1939 Games var stofnað af bræðrunum Ívari og Guðmundi Kristjánssonum eftir að Guðmundur hafði fengið frumherjastyrk frá Tækniþróunarsjóði það ár. Bræðurnir hafa báðir mikla reynslu úr tölvuleikjageiranum en þeir störfuðu báðir hjá CCP um árabil.

Ívar var einn þriggja stofnenda CCP og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins þegar EVE Online kom út árið 2003 en hann starfaði hjá CCP í 17 ár, lengst af sem fjármálastjóri. Guðmundur starfaði í 12 ár hjá CCP lengst af sem verkefnastjóri.

Árið 2017 hlaut 1939 Games 50 milljóna króna vaxtarstyrk frá Tækniþróunarsjóði til tveggja ára. Hjá 1939 Games starfa nú 11 manns á Íslandi með áratuga reynslu úr leikjaheiminum, meðal annars frá CCP og Blizzard. Auk fastráðinna starfsmanna vinnur fjöldi verktaka fyrir fyrirtækið um víða veröld.

„1939 Games hefur verið vel fjármagnað frá upphafi fyrst með aðkomu englafjárfesta ásamt frumherjastyrk og vaxtarstyrk Tækniþróunarsjóðs og síðar aðkomu sterkra alþjóðlegra og innlendra fjárfesta“ segir Ívar sem vill nota tækifærið og þakka þeim fjárfestum og Tækniþróunarsjóði fyrir þá trú sem þeir hafa haft á einstaklingunum sem standa að fyrirtækinu og þá framtíðarsýn sem hefur verið sett fram varðandi leikinn KARDS.