Leikkonan Hildur Vala Baldursdóttir kveðst ekki hafa verið há í loftinu þegar leiklistin fór að toga í hana. Á barnsaldri lék hún í barnasýningum í Borgarleikhúsinu og á táningsaldri, á meðan hún gekk í Verzlunarskóla Íslands, lék hún í öllum þeim skóla söngleikjum og leikritum sem hún komst í. Hildur Vala, sem var ráðin til Þjóðleikhússins síðastliðið vor, segir að það hafi þó ekki endilega alltaf staðið til að hún myndi gera leiklistina að atvinnu sinni.

„Eftir útskrift úr Verzló ætlaði ég nú bara að leggja leiklistina á hilluna. Mig langaði að verða leikkona en mér þótti svo óraunhæft að geta unnið við það sem mér þykir skemmtilegast að gera. Ég skráði mig því í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist með BS gráðu þaðan. Þegar ég var búin með viðskiptafræðina togaði leiklistin enn meira í mig en áður og ákvað ég því á endanum að fara í prufur til þess að freista þess að komast inn í Listaháskólann. Ég lauk svo náminu í vor og í kjölfarið var ég ráðin inn til Þjóðleikhússins. Svo þreytti ég síðasta sumar frumraun mína í sjónvarpi þegar ég lék í annarri þáttaröðinni af Venjulegu fólki. Það var ótrúlega skemmtilegt verkefni og mikil forréttindi að fá að vinna með svona fyndnu og hæfileikaríku fólki."

Hún segist þó ekki sjá eftir því að hafa farið í viðskiptafræðina. „Ég er ekkert viss um að ég hefði látið verða af því að fara í prufurnar ef ég hefði ekki verið búin með annað nám. Það veitti mér sjálfstraust að hafa klárað viðskiptafræðina, sem gaf mér svo kjark til að mæta loksins í prufurnar."

Nóg að gera í kringum jólin

Í nægu er að snúast hjá Hildi Völu fram að og yfir jólin. Hún leikur í tveimur sýningum sem sýndar eru reglulega í Þjóðleikhúsinu, auk þess sem nú standa yfir æfingar fyrir jólasýningu sem hún mun koma til með að leika í. Löngum hefur það verið þekkt meðal tónlistarmanna og annarra skemmtikrafta að jólavertíðin sé sérlega annasöm. Hildur Vala segir að í sínu tilfelli sé vinnuálagið þó svipað yfir jólin eins og flesta aðra mánuði leikhúsársins.

„Það er ekkert endilega meira að gera hjá mér í kringum jólin heldur en t.d. þessa stundina. Hins vegar, ólíkt mörgum öðrum, þá geta leikarar ekki ákveðið að hætta snemma einn daginn eða taka sér frí til að undirbúa jólin. En ætli það megi ekki segja að við séum alltaf í jólaörtröðinni," segir Hildur Vala glettin.

„Ég er núna að leika í tveimur sýningum, Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur og Atómstöðinni eftir Halldór Laxness, en sú síðarnefnda var frumsýnd núna í byrjun mánaðar. Ég tók svo við hlutverki Ronju Ræningjadóttur af Sölku Sól nú í haust og síðasta Ronju-sýningin fór fram um síðustu helgi. Svo vorum við að byrja að æfa verk sem heitir Meistarinn og Margaríta, sem verður frumsýnt á annan í jólum. Jólin mín fara því að mestu í sýningar og æfingar. Ég myndi alls ekki vilja hafa þau öðruvísi, það er frábært tækifæri að fá að taka þátt í þessum skemmtilegu sýningum."

Nánar er rætt við Hildi Völu í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .