1300 fermetra hönnunarstofa í San Fransisco, sem inniheldur meðal annars 370 fermetra partíhæð, er til sölu á 8,9 milljónir dala, eða sem nemur 1,3 milljarða króna. Eignin er staðsett í SoMa hverfinu í San Fransisco.

Ken Fulk, hönnuður frá San Fransisco, keypti fasteignina árið 2007 á 3 milljónir dala, en á þeim tíma var eignin fremur ómerkilegt vöruhús. „Ég vildi búa til mína eigin Warhol verksmiðju,“ sagði Fulk. Fulk kallaði vöruhúsið galdraverksmiðjuna eða „Magic Factory“.

Innblástur Fulk kemur frá listamanninum Andy Warhol sem átti sitt eigið stúdió sem kallaðist „The Factory“. Þar vann hann dag og nótt við verk sín en „verksmiðjan“ var ekki síst samkomustaður fyrir stjörnur í lista- og menningargeiranum. Menn eins og Lou Reed, Bob Dylan og Mick Jagger komu þar saman og skemmtu sér vel, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal.

Warhol verksmiðja Fulk skartar galleríi og hönnunarstúdíói á fyrstu hæð, auk eldhúsaðstöðu, borðstofu og fundarherbergi. Á annarri hæð hefur Fulk síðan haldið stjörnuprýddar veislur. Að hans sögn hafa Hollywood stjörnur á borð við Ryan Gosling, Emma Stone og Tom Cruise mætt til að skemmta sér í galdraverksmiðjunni.

Hér má sjá nánari upplýsingar og fleiri myndir af eigninni.