Hlutabréfaverð í enska knattspyrnufélaginu Manchester United hefur hríðfallið að undanförnu og hefur aldrei verið lægra frá skráningu. Þannig stóð gengi bréfa félagsins, sem skráð eru í New York kauphöllinni, í 10,8 dölum á hlut við lokun markaða í gær.

Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 47% frá því að það stóð í 20,5 dölum í lok september í fyrra. Þá ríkti nokkur bjartsýni hjá félaginu, sérstaklega í kjölfar kaupa á portúgölsku stórstjörnunni Cristiano Ronaldo. Markaðsvirði félagsins hefur fallið um rúmlega 1,3 milljarða punda síðan þá.

Dow Jones vísitalan, sem tekur mið af hlutabréfagengi 30 félaga í New York kauphölinni, hefur hækkað um 130% frá því að Man Utd var skráð í kauphöllina árið 2012. Á sama tíma hefur gengi United fallið um 22%.

Nokkrar ástæður liggi að baki

Almennt er talið að Glazers fjölskyldan, sem á meirihluta í félaginu, hafi ekki áhuga á því að selja hlut sinn á næstu misserum. Sú staðreynd er talin hafa lækkandi áhrif á gengi bréfanna, að því er kemur fram í grein hjá The Athletic.

Kieran Maguire, sérfræðingur í fjármálum í fótbolta, telur þó nokkrar ástæður liggja að baki lækkunar hlutabréfaverðs United.

„Hlutabréfaverð United hækkar í hvert skipti sem það kemur upp ástæða til að gera ráð fyrir hækkandi tekjum. Þá má nefna þegar Ofurdeildin var kynnt til leiks, en einnig þegar Cristiano Ronaldo kom til félagsins. Þannig er markaðurinn að taka sjóðstreymi framtíðarinnar inn í myndina.“

Hann segir að aukin samkeppni um sæti í Meistaradeild Evrópu hafi gert fjárfesta svartsýnni. „Núna verður félagið að fjárfesta í leikmannahópnum til að geta komist í Meistaradeildina. Samkeppni um Meistaradeildarsæti hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum, til að mynda með kaupum fjárfestingarhóps frá Sádi-Arabíu á Newcastle.“

Maguire bætir við að þörf félagsins til að endurgera leikvanginn Old Trafford hafi einnig neikvæð áhrif á tekjur framtíðarinnar, þar sem ekki er hægt að gera ráð fyrir viðbótartekjum í gegnum Ofurdeildina.

Að lokum bendir hann á þær vaxtahækkanir sem eru framundan vegna sívaxandi verðbólgu í heimshagkerfinu. „United eru með hreinar skuldir upp á 495,7 milljónir punda og jukust þær um 11,8% á milli ára. Brúttóskuldir félagsins hafa nánast verið þær sömu frá skuldsettri yfirtöku Glazers,“ segir Maguire.