Ford Bronco dagar verða haldnir í Brimborg 16. og 17. desember í Reykjavík og á Akureyri. Fyrir mörgum er það söguleg stund því glænýr Ford Bronco er að snúa aftur til Íslands eftir um það bil 30 ára hlé.

Ford Bronco kemur í Wildtrak og Raptor útfærslum. Hönnuðir nýja Bronco sóttu innblástur í gamla útlitið frá árinu 1966 og héldu í hrátt yfirbragð og ævintýraandann sem vissulega liggur yfir jeppanum.

Allt frá árinu 1966 þegar Ford Bronco kom fyrst fram á sjónarsviðið hefur jeppinn verið táknmynd frelsis og ævintýra. Líkt og forðum daga er auðvelt fyrir notendur að breyta jeppanum eftir aðstæðum hverju sinni. Til dæmis er hægt að fjarlægja hurðir og þak af bílnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Brimborg náði fyrirtækið einstökum samningum við Ford í Bandaríkjunum og því komu 30 eintök af Ford Bronco til landsins, nokkuð á undan öðrum mörkuðum í Evrópu. Óljóst er hvort eða hvenær fleiri eintök koma til Brimborgar og örfáir bílar eru enn á lausu.