Þótt stór hluti efnahags heimsins hafi meira og minna stöðvast í ár vegna heimsfaraldursins, hefur þróun raftækja blessunarlega haldið áfram nokkuð óhindruð. Þetta er sérstaklega mikilvægt á meðan við þurfum öll að dvelja langdvölum heima fyrir og þurfum eitthvað til að stytta okkur stundir. Til viðbótar standa margir frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að finna þeim fjármunum sem eyrnamerktir höfðu verið utanlandsferðum nýjan fjárveg, en við það gæti eftirfarandi listi komið að gagni. Á honum má ekki aðeins finna tæki til afþreyingar, heldur einnig ýmislegt sem gerir lífið þægilegra.

1. Oculus Quest 2
Sýndarveruleikagleraugu hafa verið til í nokkur ár, en hafa enn sem komið er ekki náð stórfelldum vinsældum. Gleraugun sjálf hafa hingað til verið nokkuð dýr og ómeðfærileg, og sýndarveruleikaefni verið af skornum skammti. Þetta stendur þó hægt og rólega til bóta. Oculus Quest 2 eru önnur gleraugun í Quest línu Oculus, en ólíkt flestum þarf ekki utanaðkomandi tæki – farsíma eða tövlu – til að nota þau, heldur er allur vélbúnaður sem til þarf innbyggður. Þau eru auk þess á afar viðráðanlegu verði í samanburði við flest önnur sýndarveruleikagleraugu. Þokkalegt magn leikja og annars sýndarveruleikaefnis er nú þegar fáanlegt fyrir gleraugun, og úrvalið stækkar ört, en á þriðja hundrað titla eru þegar í boði. Þrátt fyrir verðið eru upplausnin og endurnýjunartíðnin fyrsta flokks, og upplifunin eftir því. Quest 2 er því kjörin leið til að fá smá hreyfingu í vetur án þess að reita Víði til reiði eða hætta sér út í ísilagt skammdegið.

2. SwitchBot Bot
Í senn sáraeinföld og byltingarkennd hugmynd. SwitchBot er einfaldlega lítill kubbur sem þjónar þeim eina tilgangi að ýta á takka fyrir þig. Þú einfaldlega límir hann við það sem þú vilt ýta á, eða toga í, og tengir svo við símann. Þar með geturðu ýtt á viðkomandi takka hvenær sem er, hvar sem er, og meira að segja látið hann ýta sjálfur á tilteknum tíma. Tilvalið til að kveikja á kaffivélinni á morgnana eða hleypa gestum inn á stigaganginn, jafnvel sjálfum þér ef þú gleymdir húslyklum.

3. B&O Beosound A1
Beosound A1 er í raun önnur kynslóð hins fjögurra ára gamla Beoplay A1 ferðahátalara. Bang & Olufsen verður seint þekkt sem ódýrt merki, en A1 er þó vel samkeppnishæfur á sínu sviði. Hann er auk þess vatnsheldur, með innbyggða Alexa-raddstjórnun, og stærri rafhlöðu en fyrirrennari hans sem á að gefa 18 klukkustunda endingu. Hátalarinn vegur rétt rúmt hálft kíló og er 13 sentímetrar í þvermál, og er því afar handhægur, en þrátt fyrir stærðina er hljóðið frábært, enda B&O ekki þekkt fyrir annað.

4. Core Meditation Trainer
Þótt flestir hafi meiri tíma en vanalega til að slaka á heima hjá sér þessa dagana getur hugleiðsla verið góð leið til að hreinsa hugann og rækta andlegu hliðina. Þetta tæki leiðbeinir þér í gegnum hugleiðsluna með því að mæla hjartsláttinn og gefa þér merki um rétta öndun með titringi. Þú tengir tækið við símann, velur hugleiðslukerfi í meðfylgjandi snjallforriti og heldur svo á tækinu og lætur það stjórna ferðinni. Það heldur svo auðvitað utan um hvert skipti og segir þér hvernig til tókst.

Google Pixel 4a
Google Pixel 4a
5. Google Pixel 4a
Þetta er ekki flottasti, hraðvirkasti eða besti síminn á markaðnum, nóg er til af umfjöllun og auglýsingum um þá. Þetta eru hinsvegar hugsanlega bestu símakaup sem þú getur gert, ef þú ert ekki alveg á þeim buxunum að eyða 200 þúsund kalli í síma. Pixel 4a er í hentugri stærð, með góðan skjá sem þekur nánast alla framhliðina, góða rafhlöðuendingu, og það sem almennt fæst ekki í hans verðflokki: frábæra myndavél.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .