Þegar jafnvel innstungurnar eru orðnar nettengdar hátæknigræjur má nærri geta að fátt annað er undanskilið þeirri tæknibyltingu, sem reis með snjallsímunum og gervigreind veitir fögur fyrirheit um að verði ekki minni á komandi árum. Myndavélar símarnir hafa „lært" hvernig megi gera myndirnar okkar skýrari og skarpari, dróninn hér að ofan flýgur mest sjálfur, eins og við viljum, bara betur, skúringaróbotinn lærir að rata um heimilið, en nánast öllu þessu dóti má stýra með ofurtölvunni í vasanum.

Skydio 2
Skydio 2
© Aðsend mynd (AÐSEND)

  • 1. Skydio 2

Það er enginn maður með mönnum nema dróna eigi. Segja má að Skydio 2 sé næsta kynslóð dróna, fyrst og fremst vegna gervigreindarinnar sem gerir honum kleift að fljúga sjálfvirkt ef þarf. Þannig er hægt að fara í hjólatúr og stilla drónann inn á að fylgja eftir tilteknum hjólreiðamanni, sem hann gerir skammlaust, en sneiðir jafnframt hjá hindrunum eins og ljósastaurum og rafmagnslínum um leið og hann hefur auga fyrir dramatískum skotum! Myndavélin er 4K/60fps og dróninn fer upp í 58 km/klst. á sjálfstýringu, en lunkinn flugmaður kemur honum talsvert hraðar. Rafhleðslan endist í 20 mínútna flug.

Sonos Move
Sonos Move
© Aðsend mynd (AÐSEND)

  • 2. Sonos Move

Hátalararnir frá Sonos hafa verið í fremstu röð undanfarinn áratug, en Move-hátalarinn er gerður til þess að vera á ferðinni: úti í garði, á ylströndinni eða útilegunni, handtækur og þolir flest veður. Og hljómgæðin auðvitað fyrirtak. Líkt og aðrir Sonos-hátalarar er hann gerður fyrir Wi-Fi tengingu, en ólíkt þeim er hann líka með Blátönn, svo það má tengjast honum beint með símanum. Hann er með AirPlay 2 og því má stjórna honum með Siri, nú eða Alexu eða Google Assistant ef fólk er á þeim stað í lífinu.

Onewheel Pint
Onewheel Pint
© Aðsend mynd (AÐSEND)

  • 3. Onewheel Pint

Auðvitað er draumurinn ennþá að komast yfir svifbretti eins og Marty McFly notaði í Back to the Future hér til forna, en þangað til getum við gert okkur vélbretti eins og Onewheel Pint að góðu. Það er traust en furðulétt og veitist auðvelt að sigla upp brekkur á 25 km hraða. Það kemst svona 10-12 km vegalengd á einni hleðslu, en þetta fína dekk gerir það líka að verkum að brettið kemst yfir talsvert fjölbreyttari jarðveg en flest bretti önnur. Auk vega og gangstétta ræður það vel við gras og möl, gangstéttarbrúnir eru lítil fyrirstaða og það má jafnvel nota það í snjó og slabbi, þó að dekkið sé ekki beinlínis til þess gert.

iPhone 11 Pro
iPhone 11 Pro
© Aðsend mynd (AÐSEND)

  • 4. iPhone 11 Pro

Símarnir frá Apple hafa verið á þessum lista flest ár, oftast í efstu sætum. Ekki þó að þessu sinni, en það er ekki vegna þess að nýjasta árgerð iPhone sé slakari en áður, það er öðru nær. Segja má að breytingarnar frá fyrra ári hafi ekki verið byltingarkenndar, en aðalástæðan er sú að nema þörfin sé knýjandi er rétt að bíða með að fjárfesta í nýjum iPhone þar til næsta haust, þegar 5G útgáfan kemur. Að því sögðu er rétt að vekja sérstaka athygli á myndavélinni í iPhone 11, hún er býsna mögnuð, en það má svo sem segja um fleiri síma: Myndavélin í Pixel 4 er töfrum líkust og Huawei P30 Pro getur dimmu í dagsljós breytt og er með sturlaða aðdráttarlinsu.

Theragun G3
Theragun G3
© Aðsend mynd (AÐSEND)

  • 5. Theragun G3

Þetta er mögnuð nuddgræja, sem er sérhönnuð til þess að draga úr eymslum, hnútum og streitu í vöðvum með dúpu nuddi. Theragun G3 er hljóðlát og kemur með ýmsum gerðum nuddhausa, tilvalið tæki eftir að tekið er á því í ræktinni eða maraþoni snýtt úr nös.

Braava Jet M6
Braava Jet M6
© Aðsend mynd (AÐSEND)

  • 6. Braava Jet M6

Það þekkja flestir Roombu, ryksuguróbotinn knáa, sem hefur tekið að sér eitt leiðinlegasta heimilisstarfið. Framleiðandinn iRobot er hins vegar einnig með þennan skúringaróbot, sem ekki er síður kærkominn nýr heimilismaður. Hann getur fundið og úðað vatni á vandasama blettti um leið og hann moppar gólfið.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út á morgun, 30. desember. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.