Kírópraktorinn Guðmundur Birkir Pálmason, betur þekktur sem Gummi Kíró, og athafnakonan Lína Birgitta Sigurðardóttir opnuðu netverslunina moxen.is á sunnudagskvöldið. En vefverslunin selur sólgleraugu.

Sólgleraugun sem eru seld á síðunni eru hönnuð af parinu Línu og Gumma en þau eru miklir aðdáendur sólgleraugna. „Við erum bæði sólgleraugnasjúk og lítum á það eins og hvert annað skart“ segir Lína í samtali við Viðskiptablaðið. Þá segist hún þau sækja innblástur í götutísku við hönnun á gleraugunum.

Vefsíðan opnaði á sunnudagskvöld og fór salan umfram væntingar. „Það var mjög gaman að fylgjast með tölunum þegar að við opnuðum vefsíðuna en mikil umframeftirspurn myndaðist eftir sólgleraugunum sem var mjög gaman að sjá" segir Lína.

Þá segir hún þau sjá fram á að koma til með að selja aðra fylgihluti undir vörumerkinu Moxen. „Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er mjög árstíðarbundin vara. Við erum með nokkrar hugmyndir að fleiri fylgihlutum til að selja á heimasíðunni. Sólgleraugu verða þó áfram aðalfókusinn“ segir Lína Birgitta.

Öll gleraugun eru með innbyggða UV vörn og stefna þau að því að meirihluti gleraugnanna verði með fulla vörn sem samsvarar UV40 – vörn.