Gylfi Þór Sigurðsson verður ekki ákærður og er því laus allra mála. Þetta kemur fram í grein hjá Fótbolta.net, en miðillinn vísar í yfirlýsingu frá lögreglunni í Manchester.

Gylfi var handtekinn í júlí 2021 vegna gruns um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Hann var samningsbundinn Everton þegar hann var handtekinn og lék síðast keppnisleik fyrir félagið í maí 2021. Samningur Gylfa við Everton rann út á síðasta ári.

Hann spilaði síðast fyrir íslenska landsliðið í nóvember 2020 þegar liðið tapaði gegn Ungverjalandi í umspilsleik um að komast á EM.

Hér að neðan má lesa yfirlýsinguna frá lögreglunni í Manchester sem Fótbolti.net hefur undir höndunum.

Maðurinn, sem er 33 ára, sem var handtekinn í tengslum við rannsókn sem hófst í júní 2021 er laus allra mála. Rannsóknarteymið og ríkissaksóknari hafa unnið saman og komist að þeirri niðurstöðu að sönnunargögnin sem liggja fyrir á þessum tíma ná ekki þeim þröskuldi sem settur er fram í reglum saksóknara. Lögreglan á Stór-Manchester svæði er staðráðin í að rannsaka allar ásakanir til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir alla hlutaðeigandi og mun halda áfram að vinna með samstarfsstofnunum til að tryggja að einstaklingar fái stuðning í rannsóknum og víðar."