Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alvogen , hefur auglýst eitt stærsta einbýlishús landsins, við Sunnuflöt 48 í Garðabæ, til sölu. Húsið er alls 931 fermetri að stærð en óskað er eftir tilboðum í húsið.

Bygging hússins við Sunnuflöt hófst í bankagóðærinu af þáverandi eigendum og átti upphaflega að vera um 600 fermetrar en var stækkað um helming í hönnunarferlinu. Landsbankinn fékk hálffokhelda bygginguna í fangið í hruninu og var með húsið til sölu um nokkurra ára skeið. Halldór keypti húsið svo árið 2014 og lauk byggingu þess. Þá hafði hann uppi hugmyndir um að minnka húsið aftur samkvæmt viðtali við Kjarnann á þeim tíma.

Fasteignamat hússins er 291 milljón og brunabótamat 351 milljón króna. Þar eru níu herbergi samkvæmt fasteignaauglýsingu á vef MBL . Einbýlið sjálft er skráð 871 fermetri og bílskúr 61 fermetri. Við húsið er stór pallur með heitum potti ásamt myndarlegum garði en lóðin er alls 1.590 fermetrar.

Halldór lét af störfum hjá Alvogen í byrjun ársins og bar Róbert Wessman , forstjóra Alvogen og sinn nánasta samstarfsmann til margra ára, þungum sökum en síðan hafa ásakanir flogið á víxl.