Um helgina var íslenska kvikmyndin Leynilöggan valin besta fyrsta kvikmynd leikstjóra (Best Feature Film Debut) á Kvikmyndahátíðinni í Lübeck Þýskalandi.

Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá þessu segir að um sé að ræða mikinn heiður fyrir Hannes Þór Halldórsson, leikstjóra, Pegasus sem framleiða myndina og alla aðstandendur. Kvikmyndin var opnunarmynd hátíðarinnar sem var haldin hátíðlega á sérstakri gala frumsýningu síðastliðin miðvikudag.

Í tilkynningunni segir að búið sé að tryggja dreifingu í Þýskalandi þar sem hún verði sýnd í kvikmyndahúsum, bæði á íslensku með þýskum texta sem og talsett á þýsku.

Í fréttatilkynningunni er umræddri kvikmyndahátíð lýst á eftirfarandi máta:

„Norrænir kvikmyndadagar í Lubeck er ein elsta hefð kvikmynda hátíða í heiminum - fyrst kynnt af Lubeck Kvikmyndaklúbbnum árið 1956 og síðan tekið yfir af Hanseatic borginni í Lubeck 1971. Þetta er eina hátíðin í Þýskalandi, og Evrópu, sem er helguð kynningu á kvikmyndum frá Norður og Norðaustur Evrópu.“