Bergsveinn Ólafsson, stundum þekktur sem Beggi Ólafs notar þjálfunarsálfræði og jákvæða sálfræði til að þróa leiðtoga. Svo að þeir geti haft áhrif á sitt eigið líf, vinnuna og félagsleg tengsl.

Bergsveinn Ólafsson.
Bergsveinn Ólafsson.

Hann er doktorsnemi í jákvæðri vinnustaðasálfræði við Claremont Graduate University í Los Angeles og með MSc gráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði og þjálfunarsálfræði frá University of East London. Samhliða náminu hefur hann haldið fyrirlestra, gefið út tvær bækur og stýrt hlaðvarpinu 24/7. Þá varð hann einnig Íslandsmeistari í knattspyrnu með FH árið 2016.

Hvar ertu búsettur og hversu lengi hefur þú búið þar?

Ég er búsettur í Los Angeles í Kaliforníu og hef búið þar í ár.

.Hver var ástæðan fyrir því að þú fluttir?

Hún er þríþætt:

Ástæða Begga fyrir flutningunum er þríþætt.
Ástæða Begga fyrir flutningunum er þríþætt.

Nr.1 - Svala drauminum sem ég hafði um að verða atvinnumaður í knattspyrnu. Kynnast þannig öðru landi, fólki og menningu til að þroskast sem mannvera og líta öðruvísi augum á sjálfan mig og heiminn en frá litla Íslandi.

Nr.2 - Til að læra í besta skóla í heimi í sálfræðinni. Verða öflugri í að miðla því sem ég vil stuðla að í heiminum, auka trúverðugleika minn sem vísindamann og hafa áhrif á fólk til hins betra.

Nr.3 - Hafa áhrif á eins marga og ég get. Fyrirtækið mitt á Íslandi náði góðum árangri og ég var að lifa draumalífinu mínu heima. Að halda því áfram var töluvert öruggari kostur því ég veit að árangurinn hefði orðið ennþá meiri. Hins vegar erum við einungis um 350.000 manns og ég hafði metnað fyrir því að fara á stærri vígvöll og ná að snerta fleiri sálir.

Varst þú fljótur að aðlagast nýjum aðstæðum?

Það tók sinn tíma. Fyrstu þrír mánuðirnir í nýju landi eru alltaf spennandi. Þá er allt nýtt og þú getur ekki annað en brosað þar sem þér líður eins og þú sért á löngu ferðalagi.

"Hefur verið krefjandi ævintýri að koma mér á framfæri utan skólans með fyrirtækið."
"Hefur verið krefjandi ævintýri að koma mér á framfæri utan skólans með fyrirtækið."

Næstu 6 mánuðurnir á eftir eru yfirleitt krefjandi og þeir voru það fyrir mig. Að feta mig áfram í rútínunni og í gegnum félagslega heiminn var erfitt fyrir mig. Ég var mikið einn sem getur verið erfitt en ég lít á það sem mikla blessun þar sem þú færð mikinn tíma í að hugsa um sjálfan þig og stóru spurningarnar í lífinu. Auk þess tók smá tíma að aðlagast rútínunni í skólanum og svo hefur verið krefjandi ævintýri að koma mér á framfæri utan skólans með fyrirtækið.

Eftir um 9 mánuði upplifði ég loksins að ég ætti heima hérna úti. Ég fann mitt fólk, var kominn með góða rútínu, skólinn var skemmtilegur og fræðandi og það höfðu allskonar spennandi tækifæri komið upp sem gera lífið mitt þess virði að lifa því.

Er mikill munur á menningunni úti og hér heima?

Fólkið úti er ekki jafn dómhart og við Íslendingar eigum það til að vera.
Fólkið úti er ekki jafn dómhart og við Íslendingar eigum það til að vera.

Rosalega mikill, Bandaríkin eru svo stór. Það er miklu meiri fjölbreytileiki hérna og fólk frá allskonar menningarheimum.

Í Bandaríkjunum er hægari lífstíll. Það er hættulegra að búa þar, fólk hefur öðruvísi sýn á eiturlyf, það er lengra í allt og veðrið er alltaf gott.

Bilið milli fátækra og ríkra er mikið stærra og það er meiri kapítalismi hér heldur en á Íslandi.

Það er meiri áhersla á vinnu hérna og alls ekki sömu fríðindi og þau sem við búum við á Íslandi.

Fólkið hérna styður og hrósar þér þegar þú gerir eitthvað út fyrir ramman á meðan við Íslendingar dæmum frekar.

Það er töluvert meiri neysluhyggja hér. Það eru gríðarlega stór tækifæri hérna úti og það virðast allir vera að gera risastóra hluti.

Hvernig er venjulegur dagur í þínu lífi úti?

Enginn dagur er eins og ég leik mér stundum að skipta um rútínu. Undanfarið hefur hún verið sirka svona:

Vakna 05:00, rölti beint á næsta kaffihús og gríp með mér bolla. Þar á eftir tekur við 3-4 tímar í „djúpri vinnu“ þar sem ég tækla erfiðustu og mikilvægustu verkefnin hverju sinni sem krefjast einbeitingar og orku.

Dagarnir hjá Bergsveini eru fjölbreyttir.
Dagarnir hjá Bergsveini eru fjölbreyttir.

Þegar hugurinn þarf hvíld, um 10, þá nýti ég tækifærið til að hreinsa hugann og ríf í járnin eða hleyp.

Þar á eftir tekur við hádegismatur og eftir hann koma yfirleitt fundir og aðeins „léttari“ vinna fyrir hugann líkt og að senda/svara tölvupóstum og fundir.

Um 17:00 fer ég síðan stundum á aðra æfingu, eða kalla daginn góðann klukkan 18:00 þar sem ég held mér sem mest frá áreitum. Tek kvöldmatinn um 18:00-18:30 og eftir það les ég vísindagreinar og góðar bækur sem vekja áhuga minn og fer upp í rúm um 21:00.

Inn í þessum „venjulega degi“ geta síðan verið skólatímar og gæðastundir með vinum.

Hvað er planið að búa lengi úti?

Ég veit það ekki. Ég er á þeim stað að ég ætla láta lífið taka mig þangað sem ég á að fara. Ég hef alltaf verið markmiðadrifinn og vitað hvert ég er að fara og af hverju. Þrátt fyrir að vera með skýr markmið og vita minn tilgang, þá ætla ég að vera opinn fyrir því hvert lífið tekur mig.

Ég mun klára alla tímana eftir ár og rannsóknirnar og námið sjálft innan tveggja ára. Markmiðið er hins vegar koma fyrirtækinu á laggirnar hérna úti og að ná árangri í parktíska hlutanum. Því liggur beinast við að ég verði hér mikið lengur en 2-3 ár (Ekki segja mömmu að ég hafi sagt þetta) en lífið getur verið óútreikinanlegt svo við sjáum til hvað gerist.

"Við unnum nýverið keppni hérna úti sem var dæmd af farsælu viðskiptafólki og frumkvöðlum."
"Við unnum nýverið keppni hérna úti sem var dæmd af farsælu viðskiptafólki og frumkvöðlum."

Eitthvað að lokum?

Við erum að þróa hugbúnað sem sameinar nýjustu vísindin í vellíðan, þjálfunarsálfræði og gervigreind. Við unnum nýverið keppni hérna úti sem var dæmd af farsælu viðskiptafólki og frumkvöðlum.

Allir sem hafa áhuga á að stuðla til verkefnisins, skoða hvernig þjálfunarsálfræði og jákvæð sálfræði getur hjálpað þér og vinnustaðnum að blómstra og þeir sem vilja forvitnast meira um Bandaríkin og ferlið að fara út geta sent á mig: [email protected] og fylgst með mér á instagram og LinkedIn: @beggiolafs