Fjármálaborgin Hong Kong við strendur Kína heldur stöðu sinni sem dýrasta borgin fyrir starfsfólk erlendis frá til að búa í samkvæmt tölum ráðgjafafyrirtækisins ECA International.

Tvær dýrustu borgirnar eru þar með áfram í Asíu, en Tokyo í Japan heldur öðru sætinu, þrátt fyrir að almennt séð hafi kostnaður af því að lifa í heimsálfunni lækkað með gengislækkun gjaldmiðla álfunnar á móti hækkunum í Evrópu.

New York í Bandaríkjunum heldur svo þriðja sætinu sem og Genf í Sviss er áfram í því fjórða, en þar fyrir neðan fer listinn að riðlast á milli ára. Þannig er Zurick í Sviss komið í fimmta sæti nú en var í sjötta í fyrra, og þar á eftir kemur nú London í Bretlandi sem var í 10. sæti fyrir ári síðan.

Í staðinn fellur Tel Aviv í Ísrael niður í sjöunda sæti eftir að hafa verið í fimmta fyrir ári, og Seoul í Suður Kóreu fellur niður í áttunda en var í sjöunda fyrir ári. Loks er San Fransisco á austurströnd Bandaríkjanna áfram í níunda sæti en Yokohama í Japan er nú fallið niður í 10. sæti eftir að hafa verið í því áttunda í fyrra.

Árlegur listi ECA International ráðgjafafyrirtækisins yfir framfærslukostnað tekur saman kostnað við daglega neyslu, þar á meðal mat, ferðakostnað og veituþjónustu, í 208 borgum í 121 landi frá september til september ár hvert.

Breytingar milli ára nú koma til helst af því að sveiflur hafa verið í innbyrðis virði gjaldmiðla í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar sem hafi haft áhrif á kaupgetu útlendinga í hverri borg fyrir sig.

Þannig hafi styrking evrunnar, sterlingspundsins og ástralska dollarans ýtt kostnaði í Evrulöndunum, Bretlandi og Ástralíu upp á við meðan veiking tælenska gjaldmiðilsins bacth, dong í Víetnam og rúpíunnar á Indlandi hefur lækkað verðið í þeim löndum.

Þar með hrundi Mumbai niður um 34 sæti niður í það 94. milli ára. Loks hefur lækkun á olíuverði haft áhrif á borgir í Rússlandi, Brasilíu og Venezúela til lækkunar á framfærslukostnaði fyrir starfsmenn annars staðar frá þar.