Porsche Taycan er fyrsti hreini rafbíll þýska sportbílaframleiðandans í Stuttgart. Þessi fjögurra dyra sportbíll er stórskemmtilegt ökutæki og sönnun þess að Porsche DNA-ið hefur verið tekið inn á nýjar rafmagnaðar brautir. Hér er á ferðinni hreinræktaður rafsportbíll, ekta Porsche sem stendur fyllilega undir væntingum.
Sérstaða Taycan felst í mörgum þáttum sem m.a. byggja á nýrri rafvélatækni sem Porsche hefur þróað og lýsir sér í því, í mjög grófum dráttum, að tveir mótorar sjá um að endurnýja aflið í sífellu. Þannig nær Taycan að viðhalda hámarks hröðun, allan tímann, án þess að tapa niður afli og afköstum.
Rafhlaðan er byggð á 800-volta tækni í stað 400-volta tækni. Þetta eykur hleðslugetu og akstursánægju ásamt því að bíllinn verður léttari. Bíllinn nær þannig að halda stanslausri hámarkshröðun án þess að tapa afli. Kælikerfið sér til þess að bíllinn fái næga orku við hvaða aðstæður sem upp koma. Sú hugmynd, að vera með samstillta mótora, býr til mikinn aflþéttleika, mikla samfellda framleiðslu afls og mikil afköst.
Feikilega gott afl
Porsche Taycan liggur lágt en er nokkuð langur og breiður eða alls 4.963 mm að lengd og breiddin er 1.966 mm. Hjólhafið er 1.395 mm. Farangursrýmið er 84 lítrar að framan og 407 lítrar að aftan.
Porsche Taycan er gríðarlega skemmtilegur í akstri. Aksturseiginleikarnir verða ekki mikið sportlegri. Það er mikil hamingja að aka bílnum í Sport Plus akstursstillingunni en þá breytist bíllinn um karakter og fer í rosalegan ham. Hann verður stífari í fjöðrun og enn sportlegri í akstri. Hægt er að velja um nokkrar akstursstillingar og ef menn vilja rólegri akstur er fínt að vera í Normal og Sport stillingum. Fjöðrunin er einnig stillanleg.
Drægnin er 431 km á rafmagninu. Aflið er feikilega gott. Rafmótorarar skila bílnum 408 hestöflum og hámarkstogið er 345 Nm. Taycan er 5,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraðinn er 230 km/klst. Bíllinn steinliggur í beygjum þótt ekið sé allgreitt. Þéttleikinn er mikill og það heyrist lítið sem ekkert veghljóð inn í bílinn jafnvel þótt ekið sé á breiðum og stórum dekkjum á lágum bíl. Það þarf samt að fara varlega yfir hraðahindranir af augljósum ástæðum.
Umfjöllunin birtist í sérblaðinu Bílar, sem kom út fimmtudaginn 16. mars 2023. Áskrifendur geta lesið hana í heild hér.