Glæsihýsi í New York, sem var eitt sinn í eigu Júgóslavíu, hefur verið selt á 50 milljónir Bandaríkjadala, eða um 7,3 milljarða króna, til viðskiptajöfurs frá London. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Húsið hefur ekki gengið kaupum og sölum í 76 ár eða frá árinu 1946 þegar Júgóslavía keypti húsið. Húsið, sem er staðsett á Fifth Avenue, var hannað árið 1905 og byggt skömmu síðar. Það er 1.860 fermetrar að stærð og er í Beaux-Arts stíl.

Eftir að Júgóslavía leystist upp á tíunda áratugnum skiptist eignarhald hússins á milli fimm þjóða: Slóveníu, Króatíu, Bosníu og Hersegóviníu, Norður Makedóníu og Serbíu. Þjóðirnar hafa nú selt húsið, eins og áður segir, á 50 milljónir dala. Þessar sömu þjóðir seldu annað glæsihýsi í New York árið 2018 á 12 milljónir dala, hús sem þau erfðu frá Júgóslavíu.

Tristan Harper, fasteignasali hjá Douglas Elliman fasteignasölu, segir frá því í frétt WSJ hversu flókið það var að selja eignina, þar sem stjórnvöld í fimm mismunandi löndum þurftu að samþykkja söluna.

„Á einum tímapunkti fengum við í kringum 45 milljóna dala tilboð sem stjórnvöld ríkjanna höfnuðu. Þau sögðu skattgreiðendur vita rétta kaupverðið og að þeir búist við því að það verði selt á því verði.“

Húsið hefur staðið nánast ósnert í áratugi. Húsið skartar skotheldum gluggum sem snúa að Central Park, en nú sést lítið í gegnum gluggana.

„Það mun taka þrjú til fimm ár og að minnsta kosti 20 milljónir dala að gera bygginguna upp,“ segir Harper.