Frestur til að leggja fram tilboð í knattspyrnufélagið Chelsea rann út klukkan 9 að kvöldi til síðastliðinn föstudag. Bandaríski fjárfestingarbankinn Raine Group sér um söluferlið. Eins og fréttamiðlar hafa greint frá þarf breska ríkið að samþykkja mögulegan kaupanda félagsins.

Samkvæmt íþróttafjölmiðlinum Goal ætlar Raine að fækka hópi mögulegra kaupenda niður í tvo eða þrjá í síðasta lagi á morgun, 22. mars. Bankinn var ráðinn til að stýra söluferlinu af fyrrverandi eiganda Chelsea, Roman Abramovich. Eftir að Roman var beittur viðskiptaþvingunum af Bretlandi og Evrópusambandinu hefur bankinn haldið söluferlinu áfram og er í samstarfi við Abramovich, bresku ríkisstjórnina og stjórn Chelsea.

Samkvæmt Sky News hefur Raine Group sagt bresku ríkisstjórninni að vilji sé fyrir hendi að ljúka söluferlinu fyrir lok aprílmánaðar. Flestir fjárfestar sem hafa opinberað áætlanir sínar um kaup á Chelsea eru með svipuð loforð, þ.e. að byggja nýjan völl, gefa stuðningsfólki félagsins rödd, og halda félaginu á meðal þeirra bestu í Evrópu.

Átta raunhæf tilboð í hið minnsta

Til þessa er vitað um samkeppnishæf og raunhæf tilboð frá allt að átta aðilum. Fjárfestingarbankinn Centricus , með höfuðstöðvar í London, hefur lagt fram 3 milljarða punda tilboð í félagið. Nizar Al-Bassam meðstofnandi bankans og forstjórinn Garth Ritchie leiða tilboðið. Þeir eru sagðir vera í samstarfi við vogunarsjóðsstjórana Jonathan Lourie hjá Cheyne Capital og Bob Finch hjá Talis Capital, sem var áður meirihlutaeigandi í danska knattspyrnufélaginu FC Nordsjælland. Þeir eru allir ársmiðahafar til langs tíma á Stamford Bridge.

Í viðtali við breska fjölmiðilinn Times , sagði Nizar Al-Bassam að hann liti á Chelsea sem fjárfestingu til langs tíma, frekar en til 5-10 ára. „Enginn okkar sem viljum kaupa félagið erum að því vegna ást okkar á fótbolta. Við erum keyrðir áfram af viðskiptatækifærum."

Todd Boehly þykir með líklegri kandídötum samkvæmt The Athletic. Hann gerði tilboð í samstarfi við svissneska milljarðamæringinn Hansjorg Wyss, breska fasteignamógullinn Jonathan Goldstein, og bandaríska fjárfestingarfyrirtækið Clearlake. Boehly byggði upp góðan orðstír í gegnum starf sitt hjá fjárfestingar- og ráðgjafarfyrirtækinu Guggenheim Partners.

Árið 2012 festi Boehly og Mark Walter, forstjóri Guggenheim Partners, kaup á hafnarboltafélaginu LA Dodgers á 2,15 milljarða dali. Um var að ræða metfjárhæð fyrir kaup á íþróttaliði. Félagið hefur verið afar sigursælt eftir yfirtöku Boehly. Síðan þá hefur hann meðal annars keypt hlut í körfuboltafélaginu LA Lakers og kvennaliðinu LA Sparks.

Ricketts fjölskyldan , sem á hafnarboltaliðið Chicago Cubs, hefur gert tilboð í Chelsea í samstarfi við milljarðamæringinn Ken Griffin. Joe Ricketts, sem byggði upp viðskiptaveldi Ricketts fjölskyldunnar, hefur verið í umræðunni að undanförnu vegna ummæla hans frá árinu 2012. Þar sagði hann meðal annars múslima vera óvini hans, en þess má geta að fjölmargir leikmenn Chelsea eru múslimar.

Sir Martin Broughton , fyrrum stjórnarformaður Liverpool, og Lord Sebastian Coe hafa einnig lagt fram tilboð í félagið í sameiningu. Þeir eru í samstarfi við David Blitzer og Josh Harris, meðeigendur knattspyrnufélagsins Crystal Palace, sem er staðsett í London.

Nick Candy, breskur fasteignamógull, lagði fram tilboð í samstarfi við Suður-Kóreska fjárfestingarfélagið Hana Financial Group og umboðskonuna Catalina Kim.

Fjölmiðlafyrirtækið Saudi Media Group bauð einnig í Chelsea. Tilboðið er leitt af forstjóra félagsins, Mohamed Alkhereiji. Fyrirtækið hefur lofað að endurnýja samninga við lykilleikmenn félagsins, Antonio Rudiger og César Azpilicueta, og að finna nýja styrktaraðila eftir að fjarskiptafélagið Three og bílaframleiðandinn Hyundai felldu samninga sína við Chelsea tímabundið úr gildi.

Meðal annarra sem eru sagðir hafa lagt fram tilboð er bandaríska sjóðastýringarfyrirtækið Oaktree Capital . Woody Johnson , eigandi NFL liðsins New York Jets, og barnabarn stofnanda Johnson & Johnson lyfjarisans, hefur einnig lagt fram tilboð samkvæmt Telegraph .

Stuðningsfólk fái atkvæðisrétt

John Terry, fyrrum leikmaður og goðsögn félagsins stendur fyrir hinni svokölluðu „True Blues" samsteypu, sem ætlar að kaupa 10% hlut í félaginu á 250 milljónir punda. Samsteypan mun ekki geta samið við Raine um kaupin og mun því þurfa að semja við sjálfa kaupendur félagsins.

Tilboð Terry felur í sér að stuðningsfólk, leikmenn og fyrrum starfsfólk Chelsea geti keypt NFT í félaginu fyrir allt að hundrað pund og fengið atkvæðisrétt í staðinn.