Finnska hasarmyndin Sisu er ein þeirra bíómynda sem sýnd er á norrænu kvikmyndahátíðinni sem fer nú fram í Háskólabíó. Myndin fjallar um Aatami Korpi, fyrrverandi finnskan hermann í seinni heimsstyrjöldinni sem missti bæði fjölskyldu sína og heimili í stríðinu gegn Sovétríkjunum.

Árið er nú 1944 og Aatami starfar sem gullgrafari í norðurhluta Finnlandi. Eini félagsskapurinn sem hann hefur er dyggur hundur sem eltir bæði hann og hestinn hans á meðan hann reynir að gleyma fortíð sinni. Hann hefur gefist upp á stríði en örlögin leiða hann því miður aftur út í orrustu þegar hann finnur stóran gullmola og þarf að ferðast með hann alla leið til Helsinki.

Á leið sinni gengur hann fram hjá örvæntingarfullum nasistum sem eru á lokametrum stríðsins að hörfa til Noregs. Þjóðverjarnir gera sér grein fyrir því að þeir séu búnir að tapa stríðinu og í gegnum Aatami og gullið hans sjá þeir tækifæri til að forðast dauðarefsingu.

Þegar þeir reyna að stela gullinu af honum komast þeir hins vegar fljótlega að því að Aatami var nokkurs konar eins manns „dauðasveit“ sem drap hátt í 300 Rússa í vetrarstríðinu. Hann drepur hvern nasista á fætur öðrum og læra Þjóðverjarnir að hann hafi meðal annars verið kallaður „Koshai“, eða hinn ódauðlegi, af rússnesku óvinum hans.

„Sisu“ er finnskt orð sem er erfitt að þýða yfir á annað tungumál. Það lýsir í sjálfu sér þrautseigju einstaklings sem gefst aldrei upp sama hvað gerist og það er svo sannarlega þema myndarinnar. Sagan virðist líka hafa mjög mikla sögulega tengingu við finnsku leyniskyttuna Simo Häyhä, sem drap hátt í 500 rússneska hermenn í vetrarstríðinu og öðlaðist viðurnefnið „hvíti dauðinn.“

Myndin minnir einnig á kvikmyndastíl leikstjórans Quentins Tarantino. Hún er 90 mínútur á lengd, kaflaskipt og það er enginn skortur á blóðsúthellingum og svörtum húmor. Sögulega séð hafa Finnar verið þekktir fyrir velgengni í stríði en með þessari mynd hefur velgengni þeirra í kvikmyndagerð einnig verið staðfest.