Rafbíllinn Hyundai IONIQ 5 kom , sá og sigraði á verðlaunahátíðinni World Car Awards 2022 sem fram fór á alþjóðlegu bílasýningunni í New York (NYIAS) á miðvikudag þegar hann var allt í senn kjörinn „Heimsbíll ársins 2022", „Rafbíll ársins" og „Hönnun ársins".

„Við erum að vonum afar ánægð með þessa miklu viðurkenningu sem Ioniq 5 hlaut í valinu World Car enda tikkar hann í öll boxin að mati bílasérfræðinga. Útlitið er í senn „80's retro" og mjög nýtískulegt, jafnvel framúrstefnulegt sem hefur hitt beint í mark meðal fólks, enda hafa mótökurnar verið einstaklega góðar. Bílarnir sem fáum seljast allir jafnóður og í augnablikinu erum við með á borðinu rúmlega 200 pantaða bíla og þeir eru allir seldir," segir Ragnar Sigþórsson, sölustjóri Hyundai á Íslandi. Hann segir meginkosti Ioniq 5 vera það mikla rými sem bíllinn bjóði fyrir bæði fólk og farangur ásamt miklum þægindum, mikilli hljóðeinangrun og síðan einstökum aksturseiginleikum enda fjöðrunin frá MacPherson.

Mikill kraftur og góð drægni

Hyundai á Íslandi býður Ioniq 5 í þremur mismunandi búnaðarútfærslum, Comfort, Style og Premium, sem kosta á bilinu frá 5.990 til 8.390 þúsunda króna. Í Ioniq 5 með 58 kwh rafhlöðunni er rafmótor fyrir afturdrif sem skilar 170hestöflum, 350 Nm togi og 384 km drægni. Með afturhjóladrifnum bíl og 73 kwh rafhlöðu fást 218 hestöfl og 350 Nm tog sem skila bílnum í 100 km/klst á 7,4 sekúndum og er drægni rafhlöðunnar allt að 481 km. Síðast en ekki síst er Ioniq 5 með stærri rafhlöðunni boðinn fjórhjóladrifinn, þar sem rafmótorinn skilar 306 hestöflum, 605 Nm togi og 460 km drægni og er sú útgáfa Ioniq 5 aðeins 5,2 sekúndur í hundrað. Allar útfærslur eru ríkulega búnar staðalbúnaði og með Ioniq 5 Comfort er val um hvora rafhlöðuna sem er og einnig um afturdrif eða fjórhjóladrif. Style og Premium, sem eru með meiri búnaði, eru einungis boðnar með stærri rafhlöðunni og fjórhjóladrifi. Hægt er að kynna sér nánar búnað Ioniq 5 á hyundai.is.

Sautján nýir rafbílar fyrir 2030

Hyundai Ioniq 5 kom á markað 2021 og hefur síðan þá unnið til fjölda viðurkenninga, þar á meðal sem bíll ársins í Þýskalandi og Bretlandi. Ioniq 5 er af nýrri kynslóð rafbíla á nýjum og háþróuðum undirvagni Hundai Group, sem hyggst kynna sautján nýja rafbíla fyrir árið 2030.