Bílablaðamönnum var boðið til Kaupmannahafnar í tilefni frumsýningarinnar þar sem ID.Buzz var tekinn til kostanna. Bílnum var reynsluekið í Kóngsins Köben auk þess sem ekið var yfir brúna til Malmö og einnig til Hróarskeldu.

Bíllinn er skemmtilegur í akstri. Stýringin er góð og hann er léttur og þýður í akstri. Það kemur skemmtilega á óvart hvað hann er lipur og snúningshringurinn er til dæmis aðeins 11,1 metri sem er lygilegt miðað við stærð bílsins.

Rafhlaðan er 82 kW og skilar 204 hestöflum. Hann er 10,2 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Upptakið er sæmilegt en þetta er svo sem enginn sportbíll heldur 5 manna stór fólksbíll. Það er nóg pláss fyrir farþega og það fer vel um þá og ökumann í góðum og þægilegum sætum sem bjóða upp á ýmsan sveigjanleika.

ID.Buzz er fallega hannaður og vakti mikla athygli á götum Kaupmannahafnar, Hróarskeldu og Malmö í reynsluakstrinum. Ekkert skrítið raunar því hönnunin er eftirtektarferð og vel heppnuð. Fólk tengir hann við gömlu goðsögnina rúgbrauðið og þar hefur hönnuðum Volkswagen tekist vel upp. Þeir hafa stúderað gamla rúgbrauðið og ákveðið að halda mörgu í hönnuninni en bara nútímavæða hana. Útkoman er mjög góð. Þetta er ævintýralegur bíll.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.