BAÐA er nýtt íslenskt vörumerki með sápuvörur úr íslenskri olíu, grænmeti og ávöxtum. Baða er stofnað af hjónunum Erlu Gísladóttur og Ólafi Frey Frímannssyni. Baða sápurnar komu á markað í byrjun vikunnar og fást í verslunum Bónus um land allt.

„Við höfum verið að framleiða handgerðar sápur í mörg ár og fengum hugmynd að nýta grænmeti og ávexti sem að ekki væri hægt að selja í verslunum til sápugerðar. Við fengum styrk úr Uppsprettunni nýsköpunarsjóði Haga og það hjálpaði okkur við að koma framleiðslunni af stað,“ segir Erla en hún stofnaði einnig fyrirtækið Urð fyrir sex árum sem er húð- og ilmvörufyrirtæki.

„Við höfum framleitt fjórar tegundir af sápum sem að eru komnar í verslanir Bónus um allt land.  Sápurnar eru handgerðar, eins og sápur voru gerðar í gamla daga með íslenskri repjuolíu. Í sápunum eru ávextir og grænmeti sem að eru ekki lengur vænlegir til sölu í Bónus, vegna útlits eða líftíma. Fyrstu sápurnar eru með malti og banana, svörtu tei og bláberjum, gúrku og stírónuberki og súkkulaði og sítrónuberki.  Matvælin eru stútfull af vítamínum og andoxunarefnum sem að eru afar góð fyrir húðina. Því er hér um fyrirtaks hringrás að ræða sem að bæði er góð fyrir umhverfið og manneskjuna. Það gerist ekki betra,“ segir Erla.

Hún segir að sjálfbærni og umhverfismál séu leiðarljós fyrirtækisins í vali á hráefni og allri framleiðslu.

„Við erum því afar stolt af því að geta boðið öllum íslendingum upp á íslenskar handunnar gæða baðvörur á góðu verði sem gerðar eru úr hráefni sem að annars væri hent. Þannig erum við í samstarfi við Haga og neytendur að sporna gegn matarsóun og styðja við innlenda framleiðslu.“