Ástralski leikarinn Hugh Jackman greiddi 21,125 milljónir dala, eða um 3 milljarða króna, fyrir þakbúð í Chelsea hverfinu í New York. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal. Jackman er einna þekktastur fyrir hlutverk sitt í myndunum „The Wolverine“, „X-Men“ og „The Greatest Showman.“

Íbúðin er 437 fermetrar að stærð og inniheldur fjögur svefnherbergi. Það er hátt til lofts í íbúðinni og ná gluggarnir frá gólfi til þaks. Þannig er hægt að njóta glæsilegs útsýnis yfir Hudson ánna og New York borg. Síðast en ekki síst inniheldur íbúðin 343 fermetra útisvæði.

Byggingin, sem rúmar 57 íbúðir, var hönnuð af arkitektnum Jean Nouvel. Í byggingunni er sundlaug og líkamsræktarstöð sem íbúar geta nýtt sér.

Upphaflega sett á 25 milljónir dala

Íbúðin var síðast keypt á 19,4 milljónir dala fyrir 10 árum síðan, en hefur nokkrum sinnum verið sett á sölu síðan í október í fyrra. Hún var upphaflega sett á 25 milljónir dala.

Seljendur íbúðarinnar eru þau Daniel Fischel og Sylvia Neil, en Fischel er forseti alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Compass Lexecon og fyrrum deildarforseti University of Chicago Law School. Sylvia Neil starfaði eitt sinn sem aðstoðardeildarforseti skólans.