HM í fótbolta hefst á sunnudaginn kemur, með leik Katars og Ekvador. Nú, tveimur dögum fyrir fyrsta leik, hafa mótshaldarar í Katar ákveðið að hætta við að leyfa bjórsölu fyrir utan leikvangana. Þetta kemur fram í grein WSJ.

Til þessa hefur áfengissala í Katar einungis verið leyfileg á hótelum, en áfengisneysla er almennt ólögleg í Katar, og getur drykkja á almannafæri leitt til fangelsisvistar til allt að sex mánaða, eða sekt upp á 3.000 katarska ríala, eða sem nemur 120 þúsund krónum.

Yfirvöld í Katar ætluðu að leyfa sölu og neyslu áfengis á sérstökum stuðningsmannasvæðum fyrir utan leikvangana. Nú er ljóst að ekkert verður úr þeim áætlunum. Þyrstir áhagendur munu nú þurfa að fá sér bjór annað hvort upp á hóteli, eða á „FIFA Fan Festival“, sem er staðsett í Al Bidda Park í miðri Doha borg.

Í kjölfar fregnanna tísti Budweiser, aðalstyrktaraðili heimsmeistaramótsins, eftirfarandi en eyddi færslunni skömmu síðar:

Budweiser sló á létta strengi á Twitter í dag í kjölfar fregnanna.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Það er spurning hvaða afleiðingar þessi ákvörðun hefur fyrir FIFA, en þeir hafa gert samning við Budweiser um sölu á bjórnum á meðan mótinu stendur. Þannig borgar Budweiser 75 milljónir dala fyrir hvert heimsmeistaramót, gegn því að vera aðalstyrktaraðili mótanna og að enginn annar bjór sé seldur á mótunum.

FIFA sendi frá sér yfirlýsingu í dag, en þar staðfesti Alþjóðaknattspyrnusambandið fregnirnar.

„Í kjölfar viðræðna milli yfirvalda í Katar og FIFA hefur verið ákveðið að einungis selja áfenga drykki á FIFA Fan Festival og öðrum slíkum stöðum sem hafa leyfi, en hætta allri sölu áfengis í kringum leikvangana.“

The Football Supporters‘ Association (FSA) hefur tjáð sig um ákvörðunina og harma „enn eina U-beygjuna“ hjá mótshöldurum.

„Sumir áhorfendur vilja bjór á leikjum, aðrir ekki, en meginvandamálið er þessi U-beygja á síðustu stundu sem endurspeglar víðtækara vandamál – það er algert samskiptaleysi af hálfu mótshaldara gagnvart stuðningsmönnum,“ segir FSA í yfirlýsingunni hér að ofan.

„Ef mótshaldarar geta skipt um skoðun með svo stuttum fyrirvara, án skýringa, munu stuðningsmenn skiljanlega hafa áhyggjur af því hvort þeir standi við önnur loforð er varða gistingu, samgöngur og ýmis „menningarmál“.

Þetta er ekki eina stóra ákvörðunin þar sem mótshaldarar í Katar taka risastóra u-beygju, en mótið átti upphaflega að vera haldið að sumri til, og var það ein forsenda þess að Katar fengu mótið í hendurnar.

Síðar kom í ljós að það var nær ómögulegt að leika Heimsmeistaramót að sumri til í Katar vegna hitans.