Bandaríski fjárfestirinn John Textor hefur lokið yfirtöku sinni á franska knattspyrnufélaginu Olympique Lyonnais (OL). Eagle Football Holding, félag Textor, á nú 78% hlut í OL. Eagle Football hyggst gera yfirtökutilboð í eftirstandandi hlutafé í OL, sem er skráð á markað, á verðinu 3 evrur á hlut en gengið hefur verið í kringum 2,9 evrur. Financial Times greinir frá.

Kaupsamningurinn metur heildarvirði knattspyrnufélagsins á 800 milljónir evra eða um 121 milljarð króna. Þá hefur Textor einnig skráð sig fyrir 86 milljóna evra hlutafjáraukningu.

Lyon tapaði samtals 162,5 milljónum evra á síðustu tveimur leiktímabilum, eða sem nemur 24,6 milljörðum króna, en rekstrarumhverfið í franskri knattspyrnu hefur verið erfitt í Covid-faraldrinum, sem má að hluta rekja til þess að Mediapro stöðvaði greiðslur fyrir útsendingarleyfi árið 2020. Þá tókst OL ekki að tryggja sér sæti í Meistaradeildina í ár.

Textor lýsti yfirtökunni sem „nýju upphafi“ fyrir Lyon og segist hafa áform um að „byggja nýtt líkan fyrir knattspyrnu“. Eagle hyggist hefja samstarf við önnur knattspyrnufélög í Frakklandi, Brasilíu og Belgíu, einkum þegar kemur að akademíustörfum og þróun ungra leikmanna.

Textor á 40% hlut í enska knattspyrnufélaginu Crystal Palace. Hann fer einnig með ráðandi hlut í brasilíska félaginu Botafogo og belgíska liðinu RWD Molenbeek.