Nú fer senn að líða að jólum og víða um Evrópu eru borgir klæða sig í jólabúninginn. Fátt jafnast á við að fara í borgarferð til Evrópu á þessum tíma árs og kynna sér mismunandi jólahefðir hinna ýmsu landa. Sumir ákveða að nýta tækifærið og klára að kaupa jólagjafir á meðan aðrir vilja heldur geyma jólastressið og njóta þess að hafa það notalegt. Viðskiptablaðið tók saman nokkrar borgir sem eru þekktar fyrir að veita ferðalöngum magnaða jólaupplifun og skarta sínu fegursta á þessum árstíma.

Tallinn

Tallinn, höfuðborg Eistlands, er kannski ekki beint fyrsta borgin sem kemur upp í hugann þegar minnst er á borgir sem skuli heimsækja í aðdraganda jóla. Hins vegar býr borgin yfir einstökum sjarma og þá sérstaklega á veturna. Gamli bærinn í Tallinn, sem er í miðaldarstíl og er eins og klipptur út úr ævintýrabók, er meðal annars á minjaskrá Menningamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Á aðaltorgi miðbæjar Tallinn (Raekoja Plats) má svo sjá voldugt og fallega skreytt jólatré en þess má til gamans geta að þetta tré er talið vera fyrsta jólatré í heiminum sem reist var fyrir almenning, en tréð var gróðursett árið 1441.

London

Stórborgin London er vinsæll áfangastaður Íslendinga allt árið um kring og ætti enginn að vera svikinn af dvöl þar í kringum jólin. Nokkur fjöldi skautasvella er á dreif um borgina og í Hyde Park er jólaævintýraveröld með jólamörkuðum og iðandi mannlífi. Í Kew Gardens, sem er í vesturhluta borgarinnar, má gæða sér á dýrindis veigum, kaupa jólagjafir og dást að glæsilegum jólaljósum sem umlykja allt.

Brugge

Borgin Brugge í Belgíu er afskaplega falleg borg og þá sérstaklega yfir jólatíðina. Götumynd borgarinnar er gamaldags og rómantísk. Tignarleg sýki, hús sem líta út fyrir að vera gerð úr piparkökum og hestvagnaferðir á miðaldarlegum götum bæjarins gera jólaupplifunina einstaka og ógleymanlega. Í kringum jólin iðar allt af mannlífi á aðaltorgi borgarinnar, Grote Markt. Torgið er skreytt í bak og fyrir og þar er hægt að sötra á gómsætu heitu belgísku súkkulaði. Auk þess er hægt að fylgjast með árlegri ísskúlptúra keppni sem haldin er við aðallestarstöð borgarinnar, en þar mæta listamenn frá hinum ýmsu löndum til þess að keppa sín á milli.

Prag

Yfir jólin skartar höfuðborg Tékklands sínu fegursta og er þeim fagnað af miklum myndurleika af íbúum borgarinnar. Glæsilegur arkitektúr borgarinnar nýtur sín einstaklega vel í kringum jólahátíðina og þegar hvítur snjórinn þekur gotneskar byggingar borgarinnar verður upplifunin slík að hún er eins og að stíga inn í jólakort. Jólamarkaðir Prag eru með þeim frægari í Evrópu og bjóða þeir upp á frábært tækifæri til að kynnast hefðum, menningu og matarvenjum heimamanna. Sá stærsti og mest heillandi er staðsettur við aðaltorgið í gamla bænum. Þar er margt um að vera og meðal annars er hægt að sötra jólaglögg og skella sér á skauta.

Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn er Íslendingum vel kunnug og þeir sem hafa verið þar í kringum jólahátíðina geta staðfest að borgin skartar sínu allra fegursta á þessum tíma árs. Hugguleg kaffihús borgarinnar njóta sín einstaklega vel yfir hátíðarnar. Smekklegar jólaskreytingar og notalegir jólamarkaðir á götum borgarinnar skapa einstakt og jólalegt andrúmsloft. Tívolíið er sá staður borgarinnar sem er hvað mest skreyttur og er það töfrum líkast að ganga um tívolígarðinn. Aðrir staðir sem skemmtilegt er að heimsækja til að komast í jólaskap eru Nýhöfn og jólamarkaðurinn í Kristjaníu, sem er sjálfstýrt svæði í miðri höfuðborginni.

Vín

Innan Evrópu eru vandfundnar borgir sem fagna jólunum af meiri glæsibrag en austurríska höfuðborgin Vín. Íburðarmiklar jólaskreytingar og -ljós sem eru víða á götum borgarinnar gefa borginni ævintýralegt yfirbragð. Gerðu vel við þig með því að skála í jólaglögg meðan þú gæðir þér á pylsum og nýbökuðu sætabrauði á einum af mörgum jólamörkuðum sem borgin hefur upp á að bjóða. Einnig er hvergi betra að njóta ljúfra jólatóna en í Vín.