Lárus Blöndal, betur þekktur sem Lalli töframaður, hefur á síðustu árum brugðið sér í hlutverk jólasveins í kringum jólavertíðina. Hann leggur alúð í að veita sem allra bestu upplifun áhorfenda, sér í lagi til að standa undir væntingum barna.

„Ég lít á það sem mikinn heiður að fá að vera jólasveinninn. Þetta er mest spennandi vera í heimi og allir krakkar dýrka hann. Fyrir mörg börn snúast jólin aðallega um jólasveininn,“ segir Lárus sem hefur verið sjálfstætt starfarandi listamaður frá því að hann hætti hjá Borgarleikhúsinu fyrir þremur árum.

Þó að Lárus sé mikill jólaunnandi, þá segist hann ekki hafa stefnt að því að gerast jólasveinn enda komi hann fram sem Lalli töframaður á ýmsum jólaskemmtunum. Hins vegar hafi vinir og fólk í leit að jólasveini einfaldlega gert ráð fyrir að hann væri tilbúinn til að taka þetta hlutverk að sér. „Þessu var eiginlega troðið upp á mig.“

Jólaböllin ráðast af jólasveininum

Lárus lítur á jólasveininn sem mikið ábyrgðarstarf og ákvað því að gefa sig allan í hlutverkið en því fylgir að búningurinn þarf að vera upp á tíu. Hann málar sig fyrir hverja skemmtun, setur roða á kinnarnar, málar augabrúnirnar hvítar og passar að vera stutthærður og vel rakaður svo að hvíta skeggið fái að njóta sín. Hann fór til klæðskera og er nýbúinn að fá í hendurnar sérsniðinn jólasveinabúning. Lárus segir að viðmiðið hafi verið íslenskur Coca-Cola jólasveinn.

Þá er hann búinn að verða sér úti um sérstakan jólasveinagítar sem hann spilar á ef þess er ósk að. Hann geymir gítarinn að sjálfsögðu í rauðri gítartösku.

„Það er heljarinnar pakki sem fylgir því að að tileinka sér þetta hlutverk. Verandi skemmtikraftur þá hef ég séð mikið af jólasveinum og það einfaldlega ræðst af þeim hvort jólaböllin eru vel heppnuð eða ekki. Þegar ég sé lélega frammistöðu þá verð ég hálfreiður því börnin okkar eiga ekkert minna skilið heldur en að hitta frábæran jólasvein. Ein af aðalástæðunum fyrir því að ég ákvað að kafa ofan í þennan heim er sú að mig langar að hækka kröfurnar sem gerðar eru til jólasveina.“

Lárus ákvað að leggja enn meira púður í þetta verkefni í ár og hefur sett upp síðu á Facebook og Instagram undir nafninu Jólasveinninn og er kominn með heimasíðuna jolasveinaleiga.is. Hann segir kíminn að metnaðurinn hafi leitt til þess að hann sé nú dýrasti jólasveinn landsins.

Spurður hvernig börnin hans fjögur taka í þetta hlutverk hans sem jólasveins, svarar Lárus hreint út: „Hann er ekki ræddur á heimilinu.“ Lárus segir að hann myndi aldrei fyrirgefa sjálfum sér ef börnin hans missa trúna á jólasveininum vegna þess að þau sjá að pabbi þeirra leynist undir skegginu. Að sama skapi passar hann sig að gefa ekkert upp á jólaböllum. Lykillinn sé að dvelja ekki of lengi áður en spennan minnkar og jólasveinninn verður eins og hver annar maður.

„Það er mikill feluleikur hjá mér á jólaböllunum og ég reyni að lauma mér inn og út. Von mín er að gefa krökkunum frábæra upplifun, ekki síst þeim sem eru farnir að gruna.“

Viðtalið við Lárus má finna í heild sinni í Jólagjafahandbók, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .