Athafnamaðurinn Jón Ólafsson, sem stofnaði vatnsfyrirtækið Icelandic Glacial, túrar um þessar mundir með hinu goðsagnarkenndu rokkhljómsveit Rolling Stones. Má sjá mynd úr einkaþotu rokkaranna síungu á Facebook síðu Jóns.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í sumar endurnýjuðu Icelandic Glacial og Rolling Stones samstarf sitt, sem gengur út á að lágmarka kolefnisspor af yfirstandandi tónleikaferðalagi sveitarinnar í Bandaríkjunum. Er yfirskrift ferðalagsins „No Filter“. Er þetta fjórða árið í röð sem Icelandic Glacial og Rolling Stones eiga í samstarfi.

Sér Icelandic Glacial tónleikaferðalaginu fyrir íslensku vatni í glerflöskum, ásamt flokkunartunnum.

„Við erum gríðarlega stolt og ánægð með þetta farsæla samstarf og verðuga verkefni með hljómsveitinni. Frá upphafi hefur fyrirtækið okkar lagt metnað í umhverfismál og haft það að leiðarljósi að starfsemi okkar sé kolefnishlutlaus, Umhverfismálin eru partur af því hver við erum,“ var haft eftir Jóni Ólafssyni í sumar við þetta tilefni.