Rinat Akhmetov, ríkasti maður Úkraínu, hefur fest kaup á hefðarsetrinu Villa Les Cedres í Suður-Frakklandi fyrir 200 milljónir evra, um 27,5 milljarða íslenskra króna af ítalska drykkjarvöruframleiðandanum Campari. Kaupverðið er þó 150 milljónum evra undir því verði sem sett var á eignina þegar hún var sett á sölu árið 2017. Þetta kemur fram í frétt Financial Times .

Setrið sem staðsett er á frönsku rivíerunni er var byggt á nítjándu öld og var upphaflega í eigu Leópolds II, Belgíukonungs en var seinna selt til Marnier-Lapostolle fjölskyldunnar sem er á bak við Grand Marnier líkjörinn. Húsið komst svo í eigu Campari þegar fyrirtækið festi kaup á Marnier-Lapostolle fyrirtækinu árið 2016.

Húsið sjálft er rúmlega 1.600 fermetrar að stærð og eru herbergin 14 talsins. Þá fylgir eigninni einnig um 140.000 fermetra lóð.

Eigin bætist við ríkulegt fasteignasafn Akhmetov sem inniheldur m.a íbúð við One Hyde Park í London sem metin er á 137 milljónir punda og er talin ein sú dýrasta í London.

Akhmetov er metinn á um 6,7 milljarða dollara samkvæmt lista Forbes en hann er eigandi System Capital Management samsteypunnar sem hann stofnaði árið 2000. Þá er hann jafnframt eigandi úkraínska knattspyrnuliðsins Shakhtar Donetsk.