Bandaríski fjölmiðlamógullinn og milljarðamæringurinn Byron Allen hefur fest kaup á fasteign við Malibu-strönd í Kaliforníu á 100 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 14,5 milljörðum króna. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Húsið, sem var byggt um aldamótin, er 1020 fermetrar að stærð og stendur á 14 þúsund fermetra lóð. Það er staðsett í Paradise Cove Bluffs hverfinu í Malibu og hafði verið til sölu síðan í maí á þessu ári, en ásett verð var 127,5 milljónir dala. Húsið er við hliðina á 190 milljón dala húsi í eigu Jan Koum, meðstofnanda WhatsApp.

Fasteignin samanstendur af stóru fjögurra herbergja húsi og tveimur minni gestahúsum. Í húsinu má meðal annars finna sýningarsal og stórar svalir með útsýni yfir Kyrrahafið.

Húsið er eitt af mörgum í eigu Allen, sem hefur fjárfest í fasteignum í Aspen, New York, Maui og Beverly Hills, að því er kemur fram í greininni. Allen, sem byrjaði feril sinn sem grínisti, er stofnandi og forstjóri Entertainment Studios/Allen Media Group, eins stærsta fjölmiðlafyrirtækis Bandaríkjanna. Félagið á 70 sjónvarpsþætti og 12 sjónvarpstöðvar, þar á meðal The Weather Channel.