Tómas A. Tómasson, sem kjörinn var á þing í september fyrir Flokk fólksins en er þó best þekktur sem Hamborgarabúllu-Tommi, gefur lítið fyrir trommarann Steve Jordan í skemmtilegri Twitter-færslu . Steve þessi fyllir í skarð trommarans Charlie Watts á tónleikaferðalagi Rolling Stones um Bandaríkin, en Charlie féll frá í lok ágúst á þessu ári. Jordan hefur áður hlaupið í skarðið fyrir hljómsveitina og gerði það fyrst árið 1986.

Í færslunni segir Tómas frá því að hann hafi séð frá „hljómleikum róling stóns“ sem haldnir voru í New York í síðustu viku. Charlie Watts hafi ekki verið með hljómsveitinni þar sem hann er fallinn frá. „Það var “african american“ á trommunum skildi lítið eftir þó hann kynni á trommurnar,“ skrifar Tómas og á þar við fyrrnefndan Jordan.

Kveðst Tómas fremur hafa viljað sjá „Ringó þarna með þeim“ sem myndi „gefa þessu fræga bandi nýjan blæ“ og vísar hann að sjálfsögðu þar til bítilsins Ringo Starr. Endar Tómas svo færsluna á spurningunni: „Afhverju ekki?“.

Tómas hafði ekki sagt sitt síðasta heldur svaraði eigin færslu með annari sögu. Þar segir hann frá því að hann hafi sent Jóni Ólafssyni „vatnskóngi hugmyndina með að fá ringó til liðs við róling Stóns“ en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku er Jón að túra um Bandaríkin með rokkurunum síungu.

„Hann sagðist hafa nefnt þetta við keith og keith hafi hlegið,“ skrifar Tómas og vísar þar í rokkgoðsögnina Keith Richards. Endar Tómas svo færsluna á orðunum: „En hver veit þetta er góð hugmynd 7-9-13.“