Rafbílar eru nú vinsælasti kostur kaupenda þegar sala á nýjum bílum er skoðuð á síðustu átta mánuðum ársins. Kia er söluhæsti rafbíll ársins en alls hafa 356 Kia rafbílar selst á árinu. Tesla er í öðru sæti með 354 selda bíla og Hyundai í því þriðja með 261. Í næstu sætum eru Skoda með 244 bíla selda og Polestar með 228.

Tæplega 12.000 fólksbílar hafa verið seldir það sem af er ári og eru rafbílar um 25,% af heildarsölu hér á landi. Ef skoðuð er sala til einstaklinga þá eru um 53% sem velja sér rafmagnsbíl og þar á eftir kemur sala tengiltvinnbíla með 19% hlutdeild. Hybrid bílar eru með um 15% hlutdeild en dísel og bensín eru með samtals 13% hlutdeild af sölu nýskráðra bíla.

„Við finnum fyrir auknum áhuga á rafbílum með hverjum mánuðinum sem líður. Kia var söluhæsta bílamerkið á síðasta ári og við höldum okkar striki á þessu ári og er Kia önnur mest selda tegundin hér á landi og mest seldi rafbíllinn þrátt fyrir að miklar framleiðslutakmarkanir hafi verið,“ segir Þorgeir Pálsson, sölustjóri Kia hjá Bílaumboðinu Öskju, í tilkynningu.

„Kia hefur gott orðspor og lága bilanatíðni og er einnig eina bílamerkið á Íslandi með 7 ára verksmiðjuábyrgð. Þessi atriði skipta máli og ýta undir þessar miklu vinsældir sem Kia hefur notið síðustu ár. Framundan eru spennandi bílar og munum við frumsýna á komandi vikum glæsilega nýja kynslóð Kia Niro sem hefur verið einn af okkar vinsælustu bílum. Hann mun koma í þremur útfærslum, hybrid, plug-in hybrid og 100% rafmagn.“