Apollo Art er sölusvæði á netinu fyrir listaverk sem fagnar ársafmæli um þessar mundir en það var opnað 1. otkóber í fyrra. Móttökurnar hafa verið vonum framar samkvæmt Ellerti Lárussyni framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

„Við erum mjög ánægð með móttökurnar. Það var erfiðara að spá fyrir um niðurstöður þar sem þessi leið í sölu listaverka var ekki til fyrir, hér á landi. Við vissum ekki hvort fólk vildi áfram frekar skoða verkin á veggjum í gamladags galleríum eða hvort það væri sátt við að skoða verkin á skjá á sínum tíma og velja þannig. En það varð raunin að fólk virðist vilja sitja saman og velta fyrir sér meira úrvali og skoða á skjá. Sérstaklega konur, þær voru mun fljótari að taka við sér og tileinka sér þessa nýjung. Vel yfir 60% kaupenda enn í dag eru konur,“ segir Ellert.

Ellert segir að salan hafi gengið mjög vel og nú þegar sé talsvert magn listamanna sem selja nær eingöngu í gegnum Apollo Art. Til að mynda eru öll verkin hjá Jóa Pé uppseld og aðrir með tugi verka seld.

„Við höfum aukið mikið við okkur í sölu á milli mánaða og það er enn að aukast, til að mynda eru margir listamenn hjá okkur með vel yfir 20 verk seld á innan við ári. Listafólk er mjög ánægt með okkar innkomu enda er söluþóknun okkar töluvert lægri en hjá galleríum sem hafa mun meiri sölukostnað en við enda þurfum við ekki að halda úti sýningarsal með starfsfólki og opnunartíma,“ segir Ellert

Þjónusta á borð við heimamátun hefur einnig gefist vel en þar býðst viðskiptavinum að fá verk sent heim og máta það sér að kostnaðarlausu. „Þó erum við til taks á venjulegum skrifstofu tímum í síma og pósti og lengur fram eftir kvöldi á netspjalli sem hægt er að nálgast á vefnum. Einnig virðast viðskiptavinirnir ánægðir með fyrirkomulagið og þessa beinu tengingu sem fæst við listafólkið t.d. í kringum heimamátun sem margir nýta sér við val á listaverkum,“ segir Ellert.