Megane hefur frá upphafi verið einn vinsælasti fjölskyldubíll Renault. Hann hefur nú verið endurhannaður frá grunni að utan sem innan og má segja að um algerlega nýjan bíl sé að ræða. Hefur hann þegar verið kjörinn fjölskyldubíll ársins hjá TopGear, sem er mikil viðurkenning. Hönnunin er mjög flott og bíllinn er afar töffaralegur með háa boddílínu og lága glugga. Hurðarhúnarnir skjótast þegar ökumaður kemur að bílnum. Innanrýmið er smart og stýrið er sportlegt. Sætin eru þægileg og það er meira að segja boðið upp á nudd í framsætunum. Það er nóg pláss frammi í en aftursætin eru þrengri, en allt í lagi svo sem. Það þrengir hins vegar að ef þrír fullorðnir sitja þar. 12“ snertiskjárinn er prýðilegur og veitir allt það helsta sem snýr að akstrinum og afþreyingu, m.a. með Google Services.

Liggur feykilega vel

Megane E-Tech er í boði í fimm mismunandi búnaðarútfærslum og vali um 40 kWh eða 60 kWh rafhlöðu við 160 kW rafmótor. Bíllinn sem reynsluekið var að þessu sinni er í Iconic-útfærslu, sem er best útbúinn og öflugastur í línunni. Rafmótorar skila bílnum 220 hestöflum og drægið er 450 km. Það er gaman að keyra þennan bíl og aflið er til staðar í þessari dýrustu útfærslu. Aksturseiginleikarnir eru mjög góðir og bíllinn er rásfastur og stýringin góð. Þyngdarpunkturinn er lágur og bíllinn liggur því feykilega vel á veginum, sem finnst best á því að hann leggst ekkert þegar tekið er á honum í beygjum.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins frá 30. júní.