Laxveiðin síðasta sumar var á heildina litið arfaslök. Einungis tvær ár skiluðu meira en 200 löxum á stöng en það voru Selá í Vopnafirði og Laxá á Ásum. Samantekt yfir veiðina leiðir í ljós að hún dróst saman á milli ára í 38 af 51 laxveiðiá. Þar sem uppistaðan í veiðinni næsta sumar verður úr hrygningunni árið 2015 er ýmislegt sem bendir til þess að næsta sumar geti orðið nokkuð gott veiðisumar.

Alls veiddust um 28.800 laxar í íslenskum ám síðasta sumar samkvæmt bráðabirgðatölum, sem Hafrannsóknastofnun birti í október. Þetta þýðir að veiðin síðasta sumar var sú sjöunda versta síðan byrjað var að safna tölfræði um stangaveiði árið 1974 og sú lakasta frá aldamótum. Til þess að setja þessar bráðabirgðatölur í samhengi má geta þess að meðalveiði frá aldamótum er um 49.800 laxar. Það sem einkenndi síðasta veiðisumar voru mikil hlýindi í vetrarlok, sem þýddi að snjóbráð úr fjöllum rann til sjávar löngu áður en veiðitímabilið hófst. Síðan tók við þurrkatíð víða um land en þó sérstaklega á Vesturlandi, þar sem margar af bestu laxveiðiám landsins eru. Þessu til viðbótar voru smálaxagöngur almennt lakar enda byggðu þær að mestu á hrygningunni 2014, sem var lélegt laxveiðiár, þó ekki jafn lélegt og síðasta laxveiðisumar.

Í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar segir að ef veiði í hafbeitarám sé ekki tekin með í reikninginn hafi líklega veiðst um 20 þúsund laxar, sem væri þá lakasta veiði frá upphafi. Hafbeitarár eru ár þar sem gönguseiðum er sleppt vegna þess að náttúrulegar aðstæður til hrygningar eru ekki góðar. Líkt og í öðrum laxveiðiám ganga þau til sjávar og koma síðan til baka ári seinna sem smálaxar eða tveimur árum síðar sem stórlaxar. Þekktustu hafbeitarárnar eru án vafa Ytri- og Eystri-Rangá, en einnig má nefna Affallið í Landeyjum og Þverá í Fljótshlíð.

Lokaskýrsla Hafrannsóknastofnunar um laxveiðina sumarið 2019 kemur ekki út fyrr en í júní á næsta ári. Líkt og undanfarin ár tekur Viðskiptablaðið smá forskot á sæluna og rýnir í veiðitölur á vefsíðu Landssambands veiðifélaga ( LV ), angling.is .

Viðskiptablaðið hefur fengið upplýsingar um lokatölur í 51 laxveiðiá og reiknað veiði á stöng en sá mælikvarði gefur nokkuð góða mynd af veiði í ám. Veiði á stöng er líka besti mælikvarðinn til þess að bera saman laxveiðiár. Fjöldi stanga í ám getur verið misjafn milli ára en einnig eru þónokkur dæmi um að veitt sé á mismargar stangir í ám yfir sumartímann. Ágætt dæmi um það eru Elliðaárnar, en þar er ýmist veitt á fjórar eða sex stangir á veiðitímabilinu. Viðskiptablaðið hefur reynt eftir bestu getu að taka tillit til þessara þátta.

256 laxar á stöng

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að veiði á stöng hefur ekki verið lélegri síðan Viðskiptablaðið fór að taka þær tölur saman árið 2012. Samtals veiddust tæplega 24.600 laxar í 51 laxveiðiá síðasta sumar, sem gerir 79 laxa á stöng. Sambærilegar tölur fyrir sumarið 2018 eru 39.700 laxar eða 127 laxar á stöng. Frá árinu 2012 hefur veiðin mest farið í ríflega 63.600 laxa eða 198 laxa á stöng í viðmiðunarám Landssambands veiðifélaga. Þetta var sumarið 2015.

Selá í Vopnafirði trónir á toppnum eftir síðasta sumar en þar veiddust tæplega 1.500 laxar eða 256 laxar á stöng. Selá hefur ekki skilað betri veiði á stöng frá árinu 2012. Í öðru sæti á listanum er Laxá á Ásum en þar veiddust 202 laxar á stöng síðasta sumar. Í báðum þessum ám jókst veiðin á milli ára. Enn fremur eru þetta einu árnar sem skiluðu meira en 200 löxum á stöng síðasta sumar. Til samanburðar þá voru 8 laxveiðiár með 200 laxa eða meira á stöng sumarið 2018. Árið 2015 voru 18 laxveiðiár með yfir 200 laxa á stöng. Í þriðja sæti á listanum er síðan Urriðafoss í Þjórsá með 187 laxa á stöng. Er það 143 löxum minna á stöng en sumarið 2018.

Allt að 79% samdráttur á milli ára

Í 38 af 51 laxveiðiá versnaði veiðin á milli ára. Mjög algengt er að veiðin hafi dalað um 40 til 50% á milli ára. Ef litið er á þær 28 ár sem voru með yfir 100 laxa á stöng sumarið 2019 þá dróst veiðin hlutfallslega mest saman Hvíta við Langholt eða um 79%. Í Straumunum í Hvítá í Borgarfirði dróst veiðin saman um 74% á milli ára, í Þverá í Fljótshlíð nam samdrátturinn 71% og í Búðardalsá 70%. Á milli 60 til 70% samdráttur varð síðan í Hítará, Norðurá, Laxá í Kjós, Affallinu, Haukadalsá og Langá. Sem fyrr er hér miðað við veiði á stöng. Í 10 af 51 laxveiðiá jókst veiðin á milli ára. Hlutfallslega varð aukningin mest í Mýrarkvísl eða 100%. Veitt er á fjórar stangir í Mýrarkvísl og fór veiði á stöng úr 21 laxi í 42 á milli ára. Þess má geta að árlega veiðast um 500 silungar í Mýrarkvísl. Veiðin í Hafralónsá í Þistilfirði jókst um 79% á milli ára, í Deildará jókst veiðin um 49% og í Svalbarðsá um 47%.

Vonir um gott laxveiðisumar

Til að hressa stangaveiðimenn aðeins við þá er sjálfsagt að geta þess að seiði úr hrygningunni 2015, sem eins og áður sagði var mjög gott laxveiðiár, gengu til sjávar síðasta vor og ættu því að skila sér í laxveiðiár landsins næsta sumar. Þessi staðreynd er samt ekki ávísun á góða laxveiði næsta sumar en ætti samt að vekja vonir. Ágætur maður orðaði það þannig að það væri allavega ekki að vænta mikillar veiði úr lítilli hrygningu. Ferðalag laxins er hins vegar óútreiknanlegt eins og stangaveiðimenn vita og eru aðstæður í hafi stærsta breytan, þar verða mestu afföllin.

Yfirfall í Hálsalóni í byrjun ágúst

Þegar kemur að laxveiði þá ber að geta þessa að veiði í Jöklu og Blöndu litast mjög af því hvenær Hálsalón og Blöndulón fara á yfirfall. Síðasta sumar fór Hálsalón á yfirfall í byrjun ágúst og þurfa veiðimenn því að taka það með í reikninginn þegar þeir skoða veiðitölurnar í Jöklu. Blöndulón fór hins vegar ekki á yfirfall fyrr en í september. Yfirfall er það kallað þegar vatnsyfirborðið í lóni hefur hækkað það mikið að það fer að flæða yfir stífluna. Þegar þetta gerist litast árnar töluvert, sem þýðir að aðstæður geta orðið erfiðar og árnar illveiðanlegar.

Fjallað er um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út 30. desember. Þá munu áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .