Met var sett í Eystri-Rangá síðasta sumar, sem og í Affallinu í Landeyjum og Þverá í Fljótshlíð. Veiðin í þessum þremur ám var hreint út sagt mögnuð. Áin sem stal samt senunni var Andakílsáí Borgarfirði. Eftir umhverfisslys þar vorið 2017 hófust tilraunaveiðar í ánni síðasta sumar. Skiluðu hún 661 lax á stöng, sem er mögnuð tala út fyrir sig en enn ótrúlegri þegar haft er í huga að einungis var veitt í 57 daga í ánni. Í flestum ám er veitt í 90 daga og í hafbeitarám er veitt lengur. Meðalveiðin á stöng var 123 laxar síðasta sumar og skiluðu fimm laxveiðiár meira en 200.

Eins og áður sagði var veiðin í Eystri-Rangá frábær síðasta sumar. Alls veiddust 9.070 laxar, sem er met. Til samanburðar veiddust 3.048 laxar í Eystri- Rangá árið 2019. Gamla metið í Eystri-Rangá var sett árið 2007 þegar 7.473 laxar veiddust. Met var einnig sett í Affallinu en þar veiddust 1.728 laxar síðasta sumar samanborið við 323 laxa sumarið 2019. Gamla metið var frá 2010 þegar veiðimenn lönduðu 1.021 laxi. Enn eitt metið féll í Þverá í Fljótshlíð, þar sem 616 laxar veiddust samanborið við 143 sumarið á undan. Áður höfðu mest veiðst 499 laxar í Þverá en það var sumarið 2018.

Veiði á stöng

Lokaskýrsla Hafrannsóknastofnunar um laxveiðina sumarið 2020 kemur ekki út fyrr en í júní á næsta ári. Líkt og undanfarin ár tekur Viðskiptablaðið smá forskot á sæluna og rýnir í veiðitölur, þar sem m.a. er stuðst við vefsíðu Landssambands veiðifélaga (LV), angling.is.

Viðskiptablaðið hefur fengið upplýsingar um lokatölur í 50 laxveiðiám og reiknað veiði á stöng en sá mælikvarði gefur nokkuð góða mynd af veiði í ám. Veiði á stöng er líka besti mælikvarðinn til þess að bera saman laxveiðiár. Fjöldi stanga í ám getur verið misjafn milli ára en einnig eru þónokkur dæmi um að veitt sé á mismargar stangir í ám yfir sumartímann. Ágætt dæmi um það eru Elliðaárnar, en þar er ýmist veitt á fjórar eða sex stangir á veiðitímabilinu. Viðskiptablaðið hefur reynt eftir bestu getu að taka tillit til þessara þátta.

Samtals veiddust ríflega 37.800 laxar í 50 laxveiðiám síðasta sumar, sem gerir 123 laxa á stöng að meðaltali. Sambærilegar tölur fyrir sumarið 2019 eru tæplega 24.600 laxar í 51 laxveiðiá eða 79 laxar á stöng.

Veiðin síðasta sumar var ekki ósvipuð veiðinni 2018 en þá veiddust tæplega 39.600 laxar eða 127 laxar á stöng. Frá árinu 2012 hefur veiðin mest farið í ríflega 63.600 laxa eða 198 laxa á stöng í viðmiðunarám Landssambands veiðifélaga. Þetta var sumarið 2015.

Andakílsá
Andakílsá

Ótrúlegar tölur úr Andakílsá

Sú á sem stóð upp úr þegar kemur að veiði á stöng og skipar fyrsta sæti listans var Andakílsá. Vorið 2017 var inntakslón Andakílsvirkjunar tæmt með þeim afleiðingum að árfarvegurinn fylltist af aur, sem hafði mikil áhrif á lífríki árinnar. Vegna þessa var áin friðuð sumarið 2017, sem og 2018 og 2019.

Nú er verið að byggja ána upp með sleppingum seiða og síðasta sumar var í fyrsta skiptið veitt í henni frá árinu 2016. Voru þetta tilraunaveiðar og ekki er annað hægt að segja en þær hafi heppnast ótrúlega vel því alls kom 661 lax á land á eina stöng. Þess má geta að einungis var veitt í 57 daga í ánni og aðeins á flugu. Næsta sumar verður áin opnuð veiðimönnum og veitt á tvær stangir eins og áður tíðkaðist.

435% aukning

Veiðin í Eystri-Rangá var einnig mögnuð eins og áður var getið enda skipar áin annað sætið á listanum. Þar veiddust samtals 553 laxar á stöng, sem er 198% aukning á milli ára. í Affallinu, sem situr í þriðja sæti, veiddust 432 laxar á stöng, sem þýðir að veiðin í Affallinu jókst um heil 435% á milli ára.

Veiðin í Urriðafossi í Þjórsá var einnig fádæma góð eða 248 laxar á stöng og er áin í fjórða sæti listans. Selá í Vopnafirði skilaði 217 löxum á stöng og er í fimmta sæti listans. Þess má geta að Selá toppaði listann í fyrra og ekki er annað að sjá en að áin hafi nú náð vopnum sínum á nýjan leik því sumarið 2020 var þriðja árið í röð þar sem áin skilar yfir 200 löxum á stöng.

Frá því að Viðskiptablaðið fór að taka saman tölur yfir veiði á stöng árið 2012 hefur veiðin einungis einu sinni verið betri en hún var í Andakílsá síðasta sumar. Var það sumarið 2015 þegar 898 laxar veiddust á stöng í Laxá á Ásum. Þá var veitt á tvær stangir í Ásunum en síðustu ár hefur verið veitt á fjórar. Sumarið 2015 var einnig met slegið í Miðfjarðará, sem skilaði 655 löxum á stöng.

Síðasta sumar batnaði veiðin á milli ára í 38 ám af 50 en þá er vert að hafa í huga, eins og áður hefur verið nefnt, að veiðisumarið 2019 var slakt. Í töflunni sem fylgir þessari umfjöllun má til dæmis sjá að veiði í Jöklu, Leirvogsá, Hítará, Laxá í Kjós og Svartá í Húnþingi tók mikið stökk á milli ára. Í þessum ám jókst veiðin frá 110 til 230% á milli ára.

Veiðin í stórlaxaánni Laxá í Aðaldal hlýtur að vera áhyggjuefni því jafnvel þótt veiðimenn fari fyrst og síðast þangað til að ná þeim stóra þá hefur veiðin verið á stöðugri niðurleið frá árinu 2015. Veiðin í Blöndu var lélegri en oft áður en í því sambandi verður að hafa í huga að síðasta sumar voru gerðar róttækar breytingar á veiðifyrirkomulaginu, maðkurinn var tekinn út og stöngum fækkað.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem var að koma út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .