Andakílsá í Borgarfirði er sú íslenska laxveiðiá sem skilaði flestum löxum á stöng síðasta sumar eða 259. Næst á eftir kom Urriðafoss í Þjórsá með 213 laxa á stöng. Óhætt er að fullyrða að heilt yfir hafi laxveiðin verið döpur síðasta sumar, líkt og hún hefur reyndar verið undanfarin þrjú ár. Meðalveiðin í þeim 50 ám, sem fjallað er um hér var einungis 95 laxar á stöng miðað við 123 árið 2020, sem samt var ekkert sérstakt laxveiðiár. Þegar horft er á aflahæstu árnar þá veiddist mest í Ytri-Rangá síðasta sumar og þar á eftir komu Eystri-Rangá og Miðfjarðará.

Líkt og undanfarin ár hefur Viðskiptablaðið tekið saman lokatölur í 50 laxveiðiám og reiknað veiði á stöng en sá mælikvarði gefur nokkuð góða mynd af veiði í ám. Veiði á stöng er líka besti mælikvarðinn til þess að bera saman laxveiðiár. Fjöldi stanga í ám getur verið misjafn milli ára en einnig eru þónokkur dæmi um að veitt sé á mismargar stangir í ám yfir sumartímann. Ágætt dæmi um það eru Elliðaárnar, en þar er ýmist veitt á fjórar eða sex stangir á veiðitímabilinu. Viðskiptablaðið hefur reynt eftir bestu getu að taka tillit til þessara þátta.

Síðasta sumar veiddust tæplega 30.400 laxar í þeim 50 laxveiðiám, sem fjallað er um hér, sem gerir 95 laxa á stöng að meðaltali. Til samanburðar veiddust ríflega 37.800 laxar sumarið 2020 eða 123 laxar á stöng. Árið 2019 veiddust tæplega 24.600 laxar í 51 laxveiðiá eða 79 að meðaltali á stöng.

Viðskiptablaðið hefur tekið saman tölur yfir veiði í 50 bestu ánum frá árinu 2012 og frá þeim tíma hefur veiðin mest farið í ríflega 63.600 laxa eða 198 laxa á stöng. Þetta var sumarið 2015.

Andakílsá á siglingu

Sú á sem stóð upp úr þegar kemur að veiði á stöng og skipar fyrsta sæti listans var Andakílsá með 259 laxa. Síðasta sumar var fyrsta árið frá 2016 þar sem veiðileyfi voru seld í ána. Er það vegna þess að vorið 2017 var inntakslón Andakílsvirkjunar tæmt með þeim afleiðingum að árfarvegurinn fylltist af aur, sem hafði mikil áhrif á lífríki árinnar. Vegna þessa var áin friðuð sumarið 2017, sem og 2018 og 2019.

Nú er verið að byggja ána upp með sleppingum seiða. Sumarið 2020 voru tilraunaveiðar í ánni heimilaðar og ekki er annað hægt að segja annað en þær hafi tekist ótrúlega vel því alls kom 661 lax á land á eina stöng það sumar. Þess má geta að frá því að Viðskiptablaðið fór að taka saman tölur yfir veiði á stöng árið 2012 hefur veiðin einungis einu sinni verið betri en hún var í Andakílsá sumarið 2020. Var það sumarið 2015 þegar 898 laxar veiddust á stöng í Laxá á Ásum. Þá var veitt á tvær stangir í Ásunum en síðustu ár hefur verið veitt á fjórar. Sumarið 2015 er besta veiðisumar síðustu tíu ára. Það ár var einnig met slegið í Miðfjarðará, sem skilaði 655 löxum á stöng. Þrátt fyrir að veiðin í Andakílsá síðasta sumar hafi ekki verið í líkingu við tilraunaveiðarnar 2020 stendur hún samt uppi sem sú á með flesta laxa á stöng árið 2021.

Í öðru sæti yfir mestu veiði á stöng er Urriðafoss í Þjórsá með 213 laxa. Frá árinu 2017, þegar stangaveiði hófst fyrir alvöru í Urriðafossi, hefur hann skipað sér í efstu sætin á lista yfir veiði á stöng. Jafnar í þriðja og fjórða sæti eru Ytri-Rangá og Miðfjarðará með 200 laxa á stöng. Í fimmta sæti er síðan Laxá í Dölum með 193 laxa á stöng.

Mikil aukning í Ytri-Rangá og Norðurá

Síðasta sumar báru Ytri-Rangá og Eystri- Rangá höfuð og herðar yfir aðrar þegar kom að heildarafla. Í Ytri-Rangá veiddust 3.437 laxar, sem er 30% aukning frá árinu 2020 þegar ríflega 2.600 laxar veiddust í ánni. Í Eystri-Rangá veiddust 3.274 laxar síðasta sumar. Ótrúleg veiði var í ánni árið 2020 þegar 9.074 laxar veiddust, samanburðurinn á milli ára er því óhagstæður því samdrátturinn í veiðinni á milli ára nemur 64%.

Í þriðja sæti yfir mesta heildaraflann er Miðfjarðará en þar veiddust 1.796 laxar síðasta sumar, sem er aðeins meira en árið 2020 þegar 1.725 laxar veiddust í ánni. Í fjórða og fimmta sæti eru Borgarfjarðarárnar Norðurá og Þverá/Kjarrá. Í Norðurá jókst veiðin mikið á milli ára eða 46%. Alls veiddist 1.431 lax í ánni í fyrra samanborið við 979 árið á undan. Í Þverá og Kjarrá veiddust 1.377 laxar í fyrra sem er 30% meiri veiði en árið 2020.

Í töflunni segir að veiðin í Laxá í Aðaldal hafi verið 23 laxar á stöng síðasta sumar en hið rétta er að hún var 29 laxar á stöng. Þá er sjálfsagt að taka fram að Bæði Jökla og Blanda fóru á yfirfall í kringum 24 ágúst. Veiði í Jöklu hófst í byrjun júlí og var því einungis veitt í um 50 daga í ánni. Veiði í Blöndu hefst í byrjun júní.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem var að koma út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .