Rapparinn Lil Wayne hefur sett hús sitt í Miami Beach í Florida til sölu á 29,5 milljónir dala, eða sem nemur 4,2 milljörðum króna. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Húsið, sem var byggt árið 2017, er 985 fermetrar að stærð og er staðsett á Allison Island, 35 akra eyju í Biscayne Bay. Eyjan tengist meginlandi Florida með brú og segir Cyril Matz, fasteignasalinn sem sér um sölu á eigninni, að eyjan sé einkum þekktust fyrir lúxus fasteignir.

Lil Wayne, sem heitir réttu nafni Dwayne Michael Carter Jr., keypti húsið árið 2018 á 16,75 milljónir dala, eða sem nemur 2,4 milljörðum króna. Í húsinu má meðal annars finna sjö svefnherbergi, heimabíó með veggklæðningum úr rúskinni og glæsilega útisundlaug. Í húsinu er afar hátt til lofts, en í sumum herbergjum nær lofthæðin upp í tæpa sjö metra.

Hér má sjá myndir af eigninni.

Allison Island tengist meginlandi Florida með brú, en eyjan er einkum þekktust fyrir lúxus fasteignir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)