Manuel Schembri, vínþjónn á veitingastaðnum Brút í Pósthússtræti, er kominn í undanúrslit í stærstu og erfiðustu vínþjónakeppni veraldar.

Manuel Schembri vínþjónn á Brút.
Manuel Schembri vínþjónn á Brút.

Keppnin er haldin af Alþjóðasamtökum vínþjóna (f. L‘Association de la Sommelllerie Internationale - ASI). Alls hófu 68 vínþjónar frá 65 löndum keppni á þriðjudaginn. Nú standa 17 eftir í undanúrslitum og er Manuel einn þeirra. Er þetta í fyrsta skiptið sem vínþjónn frá Íslandi nær svona langt. Undanúrslitin fara fram á morgun og sjálf úrslitin á sunnudaginn.

Keppnin um besta vínþjón veraldar (e. Best Sommelier of the World) var fyrst haldin árið 1969 og er nú haldin á þriggja ára fresti. Í ár fer keppnin fram í París. Hægt verður að fylgjast með beinu streymi frá undanúrslitunum á morgun hér.

Á góðum veitingastöðum þykir ómissandi að vera með sérþjálfaða vínþjóna. Í starfi vínþjónsins felst að halda utan um vínseðil og vínkjallara veitingahúss auk þess að vera gestum innan handar með val á vínum. Vínþjónn leiðir gesti veitingastaðarins í gegnum vínseðilinn og ráðleggur pörun með réttum ef eftir því er óskað. Hann sér auk þess alfarið um að skenkja og sinna allri þjónustu við gestina hvað drykkjarföng varðar.

Manuel bjó til vínseðilinn fyrir Brút, sem hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar, m.a. silfur á hjá Star Wine List. Hann var einnig vínþjónn ársins á Íslandi árið 2021.