Manchester City, ríkjandi Englandsmeistarar í knattspyrnu, mun fá um 4,5 milljónir punda eða hátt í 800 milljónir króna frá Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, vegna þátttöku 16 leikmanna liðsins á heimsmeistaramótinu sem fer nú fram í Katar. Ekkert lið í heiminum fær hærri fjárhæð. The Times greinir frá.

FIFA mun úthluta 169 milljónum punda eða hátt í 30 milljarða króna til knattspyrnuliða í gegnum Club Benefits Programme, samstarfsverkefni FIFA og Samtaka evrópskra knattspyrnufélaga (ECA).

Fyrir hvern dag sem hver leikmaður er á mótinu fær knattspyrnuliðið sem hann leikur fyrir um 10 þúsund dali eða um 1,4 milljónir króna. Úthlutunarfjárhæð veltur á fjölda daga sem hver leikmaður er á mótinu.

Úthlutun til Barcelona er því minni en til Manchester City þrátt fyrir að leikmenn katalónska liðsins á HM voru 17 talsins. Átta þeirra voru í liði Spánar sem féll úr leik í 16 liða úrslitum gegn Marokkó.

Breska dagblaðið The Times tók saman úthlutun til allra liða ensku úrvalsdeildarinnar.

Lið Úthlutun
Manchester City £4,5m
Manchester United £2,92m
Chelsea £2,47m
Tottenham £2,33m
Arsenal £2,11m
Liverpool £1,55m
Brighton £1,38m
West Ham United £1,15m
Leicester United £1,13m
Newcastle United £1,08m
Fulham £1,02m
Brentford £0,9m
Aston Villa £0,8m
Nottingham Forest £0,79m
Everton £0,78m
Wolves £0,76m
Leeds United £0,5m
Bournemouth £0,29m
Southampton £0,29m
Crystal Palace £0,29m