Enska knattspyrnufélagið Manchester United tapaði 115,5 milljónum punda á síðasta rekstrarári, eða sem nemur 18,3 milljörðum króna. Þrátt fyrir það jukust tekjur félagsins um 18% milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Tap félagsins jókst um 23 milljónir punda á milli ára. Þá jukust skuldir félagsins um meira en 22% á tímabilinu, fóru úr 419,5 milljónum punda í 514,9 milljónir punda. Félagið greiddi 33,6 milljónir punda í arð til hluthafa, sem fór að mestu leyti til stærsta eiganda félagsins Glazers fjölskyldunnar.

Tekjuaukning félagsins á milli ára skýrist helst af því að tekjur af leikdögum voru nánast engar á rekstrarárinu júlí 2020 til júní 2021. Námu tekjurnar einungis 7 milljónum punda á árinu. Eftir að stuðningsmenn fengu aftur að mæta á völlinn batnaði afkoma félagsins af leikdögum verulega á síðasta rekstrarári og námu tekjurnar 110,5 milljónum punda.

Man Utd sló met í ensku úrvalsdeildinni þegar kemur að launagreiðslum til leikmanna á síðasta rekstrarári. Launakostnaðurinn nam 384,2 milljónum punda á árinu og jókst um 19% milli ára. Aukningin kemur til vegna kaupa félagsins á launaháum leikmönnum á borð við Cristiano Ronaldo, Raphael Varane og Jadon Sancho.

Þá nam kostnaður félagsins vegna starfslokasamninga við þjálfarana Ole Gunnar Solskjær, Ralf Rangnick og þeirra þjálfarateymi samtals 24,7 milljónum punda á rekstrarárinu.

Man Utd var skráð í New York kauphöllina árið 2012. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 11,5% frá áramótum. Gengið hefur þá lækkað um 37% frá því að það stóð í 20,5 dölum í lok september í fyrra. Þá ríkti nokkur bjartsýni hjá félaginu, sérstaklega í kjölfar kaupa á portúgölsku stórstjörnunni Cristiano Ronaldo.

Hlutabréfaverð í félaginu var í algjöru lágmarki síðastliðið sumar þegar það fór niður í 10,5 dali á hlut. Gengið stendur nú í 13 dölum á hlut.