HM í Katar hófst síðastliðinn sunnudag með opnunarleik á milli Katars og Ekvador. Í tilefni þess hefur Forbes tekið saman lista yfir fimm tekjuhæstu leikmennina á HM.

Forbes skiptir tekjum leikmanna í tvo flokka: tekjur fyrir að spila fótbolta, og tekjur utan vallar, sem eru að mestu leyti auglýsingasamningar. Heildartekjur þeirra fimm launahæstu nema 64 milljörðum króna, en þar af koma 24 milljarðar í gegnum auglýsingasamninga.

Kylian Mbappé trónir á toppi listans með 18 milljarða króna í árstekjur. Mbappé tryggði sér nýjan samning hjá PSG á þessu ári og er talið að kappinn fái þar um 15,5 milljarða króna í tekjur á ári. Auk þess er Mbappé með um 2,5 milljarða króna í tekjur utan vallar, en hann er með samning við EA Sports, framleiðanda FIFA tölvuleiksins, og skósamning Nike. Auk þess hefur Mbappé samið við önnur stórfyrirtæki á borð við Dior, Hublot, Oakley, Panini og Sorare, sem skilar sér í ágætis innkomu á árinu.

Lionel Messi, af mörgum talinn besti leikmaður allra tíma, er með árstekjur upp á 17 milljarða króna. Þar af koma 9,2 milljarðar í gegnum fótboltann en 7,8 milljarðar utan vallar.

Cristiano Ronaldo er með árstekjur upp á rúma 14 milljarða króna. Ronaldo er efstur á listanum þegar litið er til tekna utan vallar. Hann hefur gert samninga við Nike, Herbalife og Livescore. Þar að auki hefur hann samið við rafmyntakauphöllina Binance og gaf út á dögunum sitt fyrsta NFT safn í samstarfi við kauphöllina.