Launahæsti leikmaður NFL-deildarinnar er Aaron Rodgers, leikstjórnandi Green Bay Packers, en hann er með 50 milljónir dollara í árslaun eða ríflega 6,9 milljarða króna. Í Viðskiptablaðinuer fjallað ítarlega um laun leikmanna í ameríska fótboltanum.

Hvar er Brady?

Það vekur nokkra athygli að þekktasti leikmaður NFL-deildarinnar, sjálfur Tom Brady er ekki á topp tíu listanum yfir launahæstu leikstjórnendurna. Hann situr í 15. sæti listans með 15 milljónir dollara í árslaun eða 2 milljarða króna. Ástæðan fyrir þessu er ekki endilega sú að Brady hafi dalað sem leikstjórnandi því hann er enn einn af þeim bestu.
Ástæðan er sú að NFL-deildin er með launaþak. Brady, sem hefur spilað á meðal þeirra bestu í 22 ár, sættir sig nú við lægri laun en margir kollegar. Það þýðir að liðið, Tampa Bay Buccaneers, getur borgað öðrum leikmönnum hærri laun. Þar með er Brady með mjög góða leikmenn í kringum sig.

Andstæðan við þetta er líklega hinn reynsluboltinn í deildinni, fyrrgreindur Aaron Rodgers. Á þessu ári gerði  hann 3 ára samning við Green Bay, sem metinn er 150 milljónir dollara. Hann er því með ríflega þreföld árslaun Brady.

Tekjurnar sem birtar eru á listunum hér fyrir neðan eru meðallaun á ári (e. average annual value - AAV). Eru þetta einungis laun, sem leikmennirnir fá frá félagsliðum sínum, en aðrar tekjur eins og til dæmis auglýsingatekjur eru ekki inni í þeim tölum sem birtar eru hér.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.