Rafbíllinn MG4 er fimmti rafvæddi fólksbíll framleiðandans í Evrópu síðan merkið var endurvakið í höndum nýrra eigenda fyrir fáeinum árum á Evrópumarkaði. Bíllinn verður frumsýndur hjá BL næstkomandi laugardag.

MG4 er 100% rafknúinn fimm manna fjölskyldubíl í millistærðarflokki á alveg nýjum undirvagni sem MG þróaði fyrir flatt gólf, aukið rými fyrir ökumann og farþega og enn lægri þyngdarpunkt til að hámarka stöðugleika í akstri. Í undirvagninum er rafhlaða bílsins, en hún er aðeins 110 mm á hæð sem gerir einnig kleift að auka pláss í farþegarýminu.

64 kWh rafhlaða og allt að 450 km drægi

BL býður MG4 í Luxury útfærslu með 64 kWh rafhlöðu sem dregur allt að 450 km. Bíllinn er 201 hestafl og er hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst tæpar 8 sekúndur og hámarkshraði takmarkaður við 160 km/klst.