Fjölmiðlamógullinn Rupert Murdoch hefur sett tvær íbúðir í íbúðabyggingunni One Madison í New York á sölu. Ásett verð íbúðanna nemur samtals 78 milljónum Bandaríkjadala, um 10 milljörðum króna.

Myndir og frekari umfjöllun um eignina má sjá í grein hjá Wall Street Journal. Samkvæmt WSJ greiddi Murdoch tæpar 58 milljónir dala fyrir íbúðirnar árið 2014.

650 fermetrar á þremur hæðum

Ásett verð stærri íbúðarinnar nemur 62 milljónum Bandaríkjadala, um 8 milljörðum króna. Íbúðin er tæplega 650 fermetrar að stærð og er á þremur hæðum, 58., 59. og 60. hæð. Fermetraverð íbúðarinnar er þ.a.l. rúmar 12,2 milljónir króna.

Í íbúðinni eru fimm svefnherbergi og fimm baðherbergi. Þar á meðal er sérherbergi fyrir starfsfólkið. Gluggar íbúðarinnar ná frá gólfi og upp að lofti og skarta 360 gráðu útsýni yfir Hudson og East árnar, Empire State bygginguna og World Trade Center.

300 fermetra íbúð fyrir gesti

Minni íbúðin, sem er staðsett á hæðinni fyrir neðan á 57. hæð, er með ásett verð upp á 16 milljónir dala, um 2 milljarða króna. Íbúðin er um 300 fermetrar að stærð og skartar þremur svefnherbergjum.

Murdoch bjó í minni íbúðinni í einhvern tíma á meðan stærri íbúðin var í framkvæmdum. Þegar hann flutti inn í stærri íbúðina nýtti hann minni íbúðina fyrir starfsfólk og gesti, samkvæmt fasteignasalanum Deborah Grubman hjá lúxusfasteignasölunni Corcoran Group.

Grubman segir að Murdoch hafi átt margar eignir í New York í gegnum tíðina og telur að Murdoch meti það sem svo að nú sé góður tímapunktur til að selja. Hann hafði áður sett íbúðina til sölu á 72 milljónir dala árið 2015, en endaði á því að halda íbúðinni áfram í sinni eign.