Cristiano Ronaldo er nálægt því að semja við sádi arabíska knattspyrnuliðið Al Nassr um að spila með liðinu í 2 og hálft tímabil, eða til loka tímabilsins 2024-2025. Spænski miðillinn Marca greinir frá þessu.

Ronaldo myndi fá 200 milljónir evra fyrir hvert heilt tímabil, eða um 30 milljarða króna. Því er talið að hann fái í heildina um hálfan milljarð evra fyrir að spila með liðinu í 2 og hálft tímabil. Það jafngildir 75 milljörðum króna.

Marca segir að nú sé lítið sem komi í veg fyrir það að Ronaldo fari til Sádi Arabíu. Ekkert annað lið hafi boðið leikmanninum samning.

Ef kaupin ganga í gegn mun Ronaldo spila með góðum mönnum á borð við kólumbíska markmanninn David Ospina, sem lék með stórliðum á borð við Arsenal, Napoli og Nice.

Sádar vilja fá HM 2030

Sádi-Arabía, ásamt Egyptum og Grikkjum, er að undirbúa sameiginlega umsókn til þess að fá að halda HM 2030. Sádar hafa sagst ætla að fjármagna kostnaðinn við uppbyggingu á mannvirkjum í Grikklandi og Egyptalandi fyrir mótið.

Ef til þess kæmi að Sádar fengju mótið yrði það að öllum líkindum haldið að vetri til, eins og mótið í ár, vegna veðurskilyrða.