Sáraráðstefnu Kerecis í Hörpu lauk um helgina en hana sóttu 200 gestir þar sem bandarískir læknar voru í meirihluta. Ráðstefnan var tvískipt, í fyrri hlutanum var fjallað um niðurstöður nýrra vísindarannsókna á sáraroði og í seinni hlutanum um mismunandi klínískar aðferðir á notkun á sáraroði.

Á ráðstefnunni var einnig fjallað um mikilvægustu vísindagreinar ársins 2022 um sáraroð og afhenti rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, átta læknum viðurkenningar fyrir framlag þeirra.

Kynning Kerecis á samstarfsverkefni fyrirtækisins og utanríkisráðuneytisins, þar sem særðir Úkraínumenn verða meðhöndlaðir, vakti mikla athygli á ráðstefnunni. Í verkefninu munu læknar á vegum Kerecis og íslenska utanríkisráðuneytisins starfa á pólsku sjúkrahúsi að sinna særðum Úkraínubúum um sex mánaða skeið.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, segir að það sé átakanlegt að fylgjast með átökunum í Úkraínu og heyra af sjúklingum með hræðilega áverka sem ekki er bolmagn til að meðhöndla á úkraínskum sjúkrahúsum. Pólsk sjúkrahús séu að taka við þessum sjúklingum og þar eru aðstæður heldur ekki góðar, yfirfullir spítalar og skortur á sérfræðiþekkingu.

Í ræðu Guðmundar Fertrams á ráðstefnunni, kom fram að sáraroð Kerecis sé mikið notað til að meðhöndla bruna- og skotáverka í Bandaríkjunum og að talsverður hópur af læknum sé kominn með mikla reynslu af notkun á roðinu.

„Við leituðum til þessara lækna og úr varð verkefni þar sem við munum, í samstarfi við íslenska utanríkisráðuneytið manna allavega eitt stöðugildi á pólsku sjúkrahúsi, þar sem hver læknir mun starfa tvær vikur í senn,“ sagði m.a. í ræðu hans.

Jafnframt kom fram að Hilmar Kjartansson bráðalæknir hjá Kerecis muni stýra verkefninu, en hann hefur reynslu af störfum á átakasvæðum m.a. frá Nagorno-Karabakh þar sem sáraroð Kerecis var notað með góðum árangri við meðhöndlun á særðum hermönnum og borgurum árið 2020.

Myndir frá ráðstefnunni má sjá hér að neðan.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, og Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
© Aðsend mynd (AÐSEND)
© Aðsend mynd (AÐSEND)