Viðurkenningarhátíð FKA var haldin í gær. Þar voru Ásta S. Fjeldsted, Dr. Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir og Grace Achieng heiðraðar en viðburðurinn fór fram á Grand Hótel Reykjavík.

FKA Viðurkenningarhátíðin er haldin árlega við hátíðlega athöfn þar sem konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar. Að vanda voru veittar viðurkenningar á hátíðinni til þriggja kvenna sem hafa verið konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flutti erindi við þetta tilefni.

Ásta S. Fjeldsted hlaut FKA viðurkenningu 2023 sem veitt er fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning eða fyrirmynd.

Dr. Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir hlaut Þakkarviðurkenningu FKA 2023 sem er veitt konu fyrir eftirtektarvert ævistarf stjórnanda í atvinnulífinu.

Grace Achieng hlaut Hvatningarviðurkenningu FKA 2023 sem er veitt konu í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði.

Það varð strax líf og fjör eftir að opnað var fyrir tilnefningar síðasta haust og lögð var áhersla á að fá nöfn ólíkra kvenna af landinu öllu með ólíkan bakgrunn og reynslu í pottinn enda mikilvægt að beina kastaranum að flottum fyrirmyndum og fjölbreytileika.

Í dómenefnd voru Árni Sigfússon, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur og bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Chanel Björk Sturludóttir, dagskrárgerðarkona og meðstofnandi félagasamtakanna „Hennar rödd“, Kathryn Gunnarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Geko Consulting, Logi Pedro Stefánsson, listamaður og meðeigandi 101 Productions, Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar og Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarmaður og fyrrverandi forstjóri Icepharma. Þá var stjórnarkona FKA, Guðrún Gunnarsdóttir, deildarstjóri Fastus, formaður dómnefndar.

Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA, var kynnir á hátíðinni og Sigríður Hrund Pétursdóttir, formaður FKA, og Guðrún Gunnarsdóttir, formaður dómnefndar, kynntu FKA viðurkenningarhafa á svið ásamt stjórnarkonum félagsins þeim Unni Elvu Arnardóttur, varaformanni FKA, Dóru Eyland ritara FKA, Katrínu Kristjönu Hjartardóttur, gjaldkera FKA, Sigrúnu Jenný Barðadóttur og Írisi Ósk Ólafsdóttur.

Að lokinni athöfn á Hótel Reykjavík Grand var gestum boðið að fagna með viðurkenningarhöfum og þiggja léttar veitingar.

Myndir sem ljósmyndarinn Silla Páls smellti af á viðburðinum má sjá hér að neðan.

Ráðherrarnir Þórdís Kolbrún Reyfjörð Gylfadóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ásamt viðurkenningarhafanum Grace Achieng.
© Silla Páls (Silla Páls)
Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA.
© Silla Páls (Silla Páls)
© Silla Páls (Silla Páls)
© Silla Páls (Silla Páls)
© Silla Páls (Silla Páls)
Eliza Reid, forsetafrú, Chanel Björk Sturludóttir og Logi Pedro Stefánsson.
© Silla Páls (Silla Páls)
Ásta S. Fjeldsted og Sigmundur Ernir Rúnarsson.
© Silla Páls (Silla Páls)
Dómnefndin.
© Silla Páls (Silla Páls)
© Silla Páls (Silla Páls)